Bandaríkjamenn voru mjög sýnilegir á Hringborði Norðurslóða fyrr í mánuðinum með öfluga sveit tveggja öldungardeildarþingmanna, háttsettra embættismanna í Hvíta húsinu, utanríkisráðuneytinu og Norðurslóðarannsóknarstofnun Bandaríkjanna.
Jim Dehart sem fer fyrir þeirri deild í utanríkisráðuneytinu sem samræmir utanríkisstefnu Bandaríkjanna á öllum sviðum norðurslóðamála segir stjórn Joe Biden forseta leggja mikla áherslu á samstarf við bandalagsþjóðir á öllum sviðum. Það hafi komið fram með þátttöku Antony Blinken utanríksráðherra á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík í maí þar sem samstaða ríkja í ráðinu hafi verið staðfest með sameiginlegri yfirlýsingu.
„Við sammæltumst um framkvæmdaáætlun til tíu ára til að stýra starfi Norðurskauts-ráðsins til framtíðar. Við settum loftslagsbreytingar í fyrsta forgang og tökum loftslagsvána sem við stöndum frammi fyrir föstum tökum,“ segir Dehart.
Þing Hringborðs norðurslóða væri mikilvægur vettvangur ekki hvað síst í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Glasgow á á morgun.
Siglingaleið kalli á milliríkjasamstarf
Hvergi á jörðinni gætir áhrifa loftslagsbreytinganna eins mikið og á norðurslóðum þar sem hitinn hækkar þrisvar sinnum hraðar en annars staðar. Dehart segir opnun norður siglingaleiðarinnar kalla á samstarf ríkja sem liggi að norðurslóðum. Bandaríkjamenn hafi til að mynda mótmælt skilyrðum sem Rússar hafi sett varðandi siglingarnar.
„Þeir vilja setja skilyrði fyrir skip sem sigla norðurleiðina, t.d. um tilkynningarskyldu og skyldu til að nota rússneska ísbrjóta. Þetta brýtur í bága við alþjóðalög og við höfum því mótmælt þessu,“ segir Dehart.
Hafa áhyggjur af Kína
Á sama tíma hafi Bandaríkjastjórn stutt núverandi formennsku Rússa í Norðurskautsráðinu og vilji vinna með þeim. Hins vegar hafi Kínverjar sem ekki eigi land að norðurslóðum einnig reynt að gera sig gildandi á norðurslóðum.
„Við höfum nokkrar áhyggjur af framferði Kínverja víða um heim. Alþjóðalög og strangar reglur gilda um norðurskautssvæðið. Hvert það ríki sem vill láta til sín taka og starfa á norðurslóðum þarf að hlíta þessum lögum og reglum. Við munum halda því til streitu,“ segir Jim Dehart að lokum.