„Hennar ábyrgð er ekki minni heldur en hinna. Og ef það verður svo þá er ekkert annað í stöðunni en að trúnaðarráð komi saman og kalli eftir nýjum kosningum í stéttarfélagið,“ segir Guðmundur.
Líkt og greint hefur verið frá hafa Sólveig Anna Jónsdóttir sagt af sér sem formaður Eflingar og Viðar Þorsteinsson sagt upp sem framkvæmdastjóri. Upphafið má rekja til kröfu Guðmundar um að fá afhenta ályktun starfsfólks þar sem Sólveig Anna er borin þungum sökum, meðal annars kjarasamningsbrot. Guðmundur segir að Sólveig hafi stillt fólki upp við vegg þegar hún boðaði það á fund og fór fram á að ásakanirnar yrðu dregnar til baka – ella myndi hún segja af sér.
„Það er óþolandi að stilla starfsfólki svona upp eins og gert var á þessum starfsmannafundi,“ segir Guðmundur, og bætir við að mikil ólga hafi ríkt á fundinum.
„Það var mikil geðshræring á þessum fundi, eins skiljanlegt og það nú er. Ég var ekki vinsælasti maðurinn þarna á svæðinu og það kom frá að minnsta kosti tveimur stjórnarmönnum að ég ætti að segja af mér fyrir trúnaðarbrot,“ segir hann, en Guðmundur greindi frá því á RÚV fyrir helgi að stjórnin hefði neitað að afhenda honum ályktunina.
„Ég var eingöngu að fara eftir því sem mér ber skylda til sem réttkjörins stjórnarmanns í Eflingu. Ég á að rækja skyldur mínar, fylgjast með því sem gerist þarna og þarna var verið að halda að mér upplýsingum.“
Sjálfur segist hann ekki ætla að segja af sér, enda sé hann með umboð kjósenda stéttarfélagsins til að starfa innan stjórnarinnar.