Vallea á uppleið og hafði betur gegn Fylki

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Vallea vs Fylkir

Bæði Fylkir og Vallea voru hungruð í sigur þegar liðin mættust í Inferno kortinu í gærkvöldi. Vallea náði sér ekki á strik í upphafi tímabilsins en hafði þó unnið síðustu tvo leiki sína á meðan Fylkir hefur ekki unnið síðan í fyrsta leik sínum gegn Kórdrengjum. Liðin voru bæði í kraðakinu fyrir miðju stigatöflunnar og því mikilvægt fyrir þau að standa sig vel í gærkvöldi til að skilja sig frá botninum. 

Vallea hafði betur í hnífalotunni og byrjaði í vörn (Counter-Terrorists) en Fylkismenn gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrstu tvær loturnar. Vallea voru þó fljótir að jafna og koma sér yfir í 5-3 snemma í fyrri hálfleik. Stalz átti virkilega góða spretti í vörninni á B svæðinu og nýtti Vallea sér það til að pressa Fylki þangað sem vandræðin biðu þeirra. Fylkismenn fundu þó lausn á þessu og eignuðu sér stærra svæði á kortinu í þeim lotum sem eftir voru og héldu efnahag Vallea í skefjum. Bæði lið börðust hart en útlitið var  gott fyrir Fylkismenn þegar fyrri hálfleikur leið undir og liðið var í stöðunni 8-5. Vallea náði þó að klóra í bakkann, vinna síðustu tvær loturnar og halda sér vel inni í leiknum..

Staða í hálfleik: Fylkir 8 - 7 Vallea

Vallea mætti af fullum krafti í sóknina í síðari hálfleik og framan af gekk hvorki né rak hjá Fylkismönnum sem voru heldur baka til og svifaseinir til að byrja með. Leikmenn Vallea voru bæði skipulagðir og óhræddir við að taka áhættu og keyra inn á sprengjusvæðin. Vallea náði því að vinna upp gott forskot þar sem Narfi var einstaklega útsjónarsamur í að sækja fellur og valda skaða. Fylkir átti minni háttar endurkomu þar sem Pat lét heldur betur finna fyrir og Jolli hrökk í gang, en það dugði þó ekki til. Fylkir gælir því enn við botninn á stigatöflunni en Vallea er á fleygiferð og situr nú í þriðja til fjórða sæti.

Lokastaða: Fylkir 12 - 16 Vallea

Vallea liðið hefur náð sér á strik og er komið á ágætis skrið með þrjá sigra í röð. Í næstu umferð mætir liðið XY, en þetta eru einmitt liðin sem berjast um þriðja sætið. Fylkir mætir aftur á móti Ármanni, en báðir leikir fara fram þriðjudaginn 16. nóvember. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir