Tryggvi skoraði ellefu stig auk þess sem hann reif niður sex fráköst þegar lið hans, Zaragoza, vann tíu stiga sigur á Real Betis 82-72.
Tryggvi lék aðeins þrettán mínútur í leiknum en skilaði aldeilis góðu framlagi á þeim tíma.
Fimm af sex fráköstum Tryggva í leiknum voru sóknarfráköst auk þess sem hann nýtti öll fjögur skot sín í leiknum og hitti úr þremur af fjórum vítaskotum sínum.
Á sama tíma var Jón Axel Guðmundsson í eldlínunni í ítölsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar lið hans, Bologna, lagði Treviso að velli með þrettán stiga mun, 83-70.
Jón Axel skoraði þrjú stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.