„Um klukkan eitt síðastliðna nótt barst lögreglu tilkynning um að dvalargestum í sumarhúsahverfi utan við Egilsstaði hafi verið hótað með skotvopni. Er lögregla kom á vettvang hitti hún fyrir þrjá aðila, rjúpnaskyttur er gistu í bústað í hverfinu og grunur lék á að hlut ættu að máli. Vopn þeirra voru haldlögð á vettvangi,“ segir í tilkynningunni.
Lögreglan hafi í kjölfarið tekið skýrslur af vitnum og yfirheyrt þremenningana. Tveir þeirra hafi fengið vopn sín afhent að yfirheyrslum loknum, en einn ekki. Rannsókn málsins sé vel á veg komin og málið verði sent til ákærusviðs lögreglu til afgreiðslu, að henni lokinni.
Segir haglabyssu hafa verið miðað að sér
Morgunblaðið fjallaði í kvöld um mál þriggja ungra manna sem sögðu sér hafa verið ógnað með skotvopni í nótt. Haft er eftir einum þeirra að vinirnir hafi verið að skemmta sér í sumarbústað á Austurlandi þegar atvikið átti sér stað.
Þeir hafi verið að halda gleðskap og ætlað að reka nokkra menn út, sem hafi verið að áreita ungar stelpur í húsinu. Mennirnir hafi farið, en ítrekað snúið og haft í hótunum við húsráðendur. Hótanirnar hafi svo náð hámarki þegar einn mannanna miðaði haglabyssu í andlitið á einum þeirra sem stóð fyrr gleðskapnum.
Í kjölfarið hafi lögreglu verið gert viðvart. Hún hafi komið á staðinn og gert skotvopnið upptækt.