Samningur Óskars við KR rann út eftir síðasta tímabil. Fótbolti.net greindi frá því í gær að Óskar væri líklega á leið í Stjörnuna en tilboð Garðbæinga hafi verið talsvert bitastæðara en tilboð KR-inga.
„Hann er með samningstilboð á borðinu frá okkur, sem gerir ráð fyrir því að hann fái nýjan samning til eins árs. Boltinn er hjá honum. Hann er samningslaus þannig hann má ræða við önnur félög. En að sjálfsögðu viljum við halda honum eins og tilboðið ber með sér,“ sagði Páll.
Að hans sögn hefur Óskar ekki greint KR-ingum frá því hvenær hann hyggist svara þeim.
„Við höfum áður samið við hann á þessum tíma og þessum forsendum. Auðvitað er farið að síga á seinni hlutann en honum er frjálst að líta í kringum sig. En ég veit ekki hvort hann er í viðræðum við Stjörnuna eins og komið hefur fram í fjölmiðlum eða önnur félög. Ég þekki það ekki og ekkert velt því fyrir mér. Hann er bara með tilboð frá okkur og við viljum halda honum eins og hann veit,“ sagði Páll.
Óskar hefur leikið með KR undanfarin fimmtán ár og er fyrirliði liðsins. Hann er leikja- og markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 239 leiki og 73 mörk. Óskar lék alla 22 leiki KR í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili og skoraði fimm mörk. KR-ingar enduðu í 3. sæti.
Ekki náðist í Óskar við gerð fréttarinnar.