Íslenski boltinn

Áttar sig ekki á Stjörnunni: „Bíð bara eftir því að Garpur poppi þarna upp“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Geturðu spilað hægri bakvörð?“
„Geturðu spilað hægri bakvörð?“ vísir/viktor freyr

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi unnið Fram um helgina veit Albert Brynjar Ingason enn ekki hvar hann hefur liðið og Jökul Elísabetarson, þjálfara þess.

Eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð sigruðu Stjörnumenn Framara, 2-0, á Samsung-vellinum í Garðabæ í 6. umferð Bestu deildar karla á laugardaginn.

„Með Stjörnuna, mjög mikilvægur sigur. En þetta var hins vegar leikur sem sagði mér ekkert um það hvort Stjarnan sé búin að finna einhvern takt eða ekki,“ sagði Albert þegar fjallað var um leik Stjörnunnar og Fram í Stúkunni í gær.

„Jökull gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu sínu og það eru því komnar þrettán breytingar í síðustu þremur leikjum. Á maður að segja að Stjarnan sé búin að finna taktinn af því að Gummi Kri er orðinn hægri bakvörður, sá þriðji á þessu tímabili. Ég bíð bara eftir því að Garpur poppi þarna upp,“ bætti Albert við og vísaði til bróður Jökuls og aðstoðarmanns hans, Garps Elísabetarsonar. Sá hafði í nægu að snúast um helgina að fylgjast með Bakgarðshlaupinu í Öskjuhlíð.

Albert ítrekaði að hann vissi ekki alveg hvernig framhaldið yrði hjá Stjörnunni.

„Allt tímabilið, allt undirbúningstímabilið er rosalega erfitt að segja. Sigurinn hjá Stjörnunni er ógeðslega mikilvægur en hvort sem þeir eru mættir til leiks, veit ég ekki,“ sagði Albert.

Klippa: Stúkan - áttar sig ekki á Stjörnunni

Stjarnan er í 6. sæti Bestu deildarinnar með níu stig eftir sex umferðir. Næsti deildarleikur liðsins er gegn Víkingi á heimavelli á sunnudaginn. Á miðvikudaginn mætir Stjarnan hins vegar Kára í Akraneshöllinni í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×