XY nær sér aftur á skrið

Snorri Rafn Hallsson skrifar
XY - VALLEA

Eins og alltaf í Vodafonedeildininni í CS:GO var mikið í húfi fyrir XY og Vallea. Liðin voru jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Vallea, sem á síðasta tímabili lék undir fána XY hafði átt brösuglega byrjun en unnið þrjá leiki í röð á meðan XY fór vel af stað en réði ekki við toppliðin Þór og Dusty í síðustu viðureignum sínum.

Aftur lá leiðin beinustu leið til Cedar Creek í Nuke kortið og vann XY hnífalotuna og byrjaði í vörn. Fyrsta lotan á erindi í sögubækurnar þar sem KiddiDisco lék sinn fyrsta leik í Vodafonedeildinni og rétt bjargaði lotunni fyrir horn þegar hann stóð í reykjarmekki og aftengdi sprengjuna einungis augnabliki áður en hann var felldur með hnífsstungu. Ágætis byrjun það og XY fór með völdin á kortinu í upphafi fyrri hálfleiks. Fyrstu fimm loturnar féllu XY í vil með góðum opnunum snjöllum lestri á leik Vallea. Í stöðunni 8-1 fór þó að síga undan fæti og Vallea komst á flug. Vallea hægði örlítið á leik sínum en með því að sækja opnanir snemma í lotum og fara samstilltir í aðgerðir tókst þeim að vinna allar loturnar sem eftir voru í  fyrri hálfleik. Þannig glataði XY peningaforskotinu sem hafði verið töluvert og vörn þeirra molnaði í sundur.

Staða í hálfleik: Vallea 7 - 8 XY

Aftur átti sér stað ótrúlegt atvik í fyrstu lotu síðari hálfleiks þegar KeliTurb0 var einn gegn tveimur andstæðingum með einungis 1% líf og tókst að fella leikmann Vallea sem var í þann mund að aftengja sprengjurnar. Brást Goa7er þar bogalistin sem var í dauðafæri til að fella KelaTurb0, en þar sviku dúllurnar góðan dreng. Leikmenn XY virtust staðráðnir í að missa ekki tökin á leiknum aftur og með rósemd og yfirvegun sigldu þeir sigrinum heim. Frumraun KiddaDisco var gríðarlega góð og ljóst að hann á vel heima í þessari góðu liðsheild og fullt erindi í efstu deild.

Lokastaða: Vallea 9 - 16 XY

Með sigrinum kom XY sér í þriðja sæti deildarinnar á eftir Dusty og Þór, en næst leikur XY gegn Ármanni á föstudaginn í næstu viku. Vallea er aftur á móti dottið niður í fimmta sæti og á erfiðan leik fyrir höndum þegar liðið mætir Dusty í næstu viku. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir