Auk Northrop Grumman eru AVL, Intuitive Machines, Lunar Outpost og Michelin í hópnum.
Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir Steve Krein, aðstoðarforstjóri NG, að fyrirtækin muni útvega Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) lipra og hagkvæma hönnun sem muni gera stofnuninni mun auðveldara að kanna yfirborð tunglsins.
Vinna fyrirtækjanna á bæði að snúa að tungljeppa og vélmennum sem eigi að nota til að kanna tunglið og á endanum mars.
NASA sendi í haust út boð til bandarískra fyrirtækja um hugmyndir varðandi þróun og framleiðslu nýs tungljeppa.
Sjá einnig: NASA leitar hugmynda um tungljeppa
Tungljeppinn á að vera fyrir geimfara Artemis-áætlunarinnar og eiga þeir að geta ferðast í jeppanum. Þeir verða þó klæddir í geimbúninga sína þar sem tungljeppinn verður opinn. Þá er ætlast til þess að hægt verði að nota jeppann í mörgum ferðum til tunglsins sem eiga að spanna meira en áratug.
NASA stefnir á að senda geimfara til suðurpóls tunglsins á þessum áratug og á að byggja þar nýja tunglstöð á yfirborðinu og ýmislegt annað. Bækistöð þessa á svo að nota sem stökkpall lengra út í sólkerfið.
Geimjeppinn sem NG segist vera að vinna að á að vera opinn, eins og segir hér að ofan. Samkvæmt frétt Space.com stefnir NASA þó á að senda einnig þrýstijafnað faratæki til tunglsins sem geimfarar geta notað án geimbúninga og jafnvel búið í ef þörf er á.
Unnið er að þróun þessa farartækis í samvinnu við Geimvísindastofnun Japans (JAXA) og Toyota.
Hér má sjá myndband frá Northrop Grumman þar sem farið er nánar út í þróun tungljeppans og annað sem hópurinn vinnur að.