Saga hafði betur í botnslagnum

Snorri Rafn Hallsson skrifar
SAGA kórdrengir

Síðari hluti sjöttu umferðarinnar í Vodafonedeildinni í CS:GO fór fram síðastliðið föstudagskvöld. Í fyrri leiknum mættust botnliðin Saga og Kórdrengir. Bæði lið hafa mætt erfiðum andstæðingum hingað til og ekki tekist að skapa sér mörg tækifæri á leikvellinum. Saga hafði einungis unnið einn leik hingað til, gegn vængstýfðu liði Ármann í fjórðu umferð en Kórdrengjum hefur ekki tekist að næla sér í nein stig. 

Liðin mættust í Nuke kortinu og höfðu Kórdrengir betur í hnífalotunni og fengu að byrja í vörn. Það reyndist gott val þar sem Saga leikur nokkuð einhæft í sókninni og takist þeim ekki að láta hefðbundnar aðgerðir ganga upp lendir liðið oftar en ekki í vandræðum. Saga fór þó inn í leikinn af fullum krafti og vann fyrstu þrjár loturnar en Kórdrengir voru fljótir að komast upp á lagið með að fella ADHD snemma og framan af átti Saga engin ráð við því. Kórdrengir voru því komnir í ákjósanlega stöðu, 6-3, þegar Saga skipti um gír og tókst eiginlega í fyrsta sinn á tímabilinu að draga kanínu upp úr hattinum. DOM, brnr og Cris stigu heldur betur upp og þurfti Saga því ekki að reiða sig eins mikið á einstaklingsframtak ADHD sem Kórdrengir höfðu varnað. Leikurinn varð því æsispennandi og staðan eins jöfn og hugsast getur í hálfleik.

Staða í hálfleik: Saga 8 - 7 Kórdrengir

Aftur mætti Saga með miklum látum inn í hálfleik og hrifsaði til sín fyrstu þrjár loturnar. Kórdrengir voru ragir framan af en eftir að þeim tókst að vinna nítjándu lotuna batnaði ásjóna liðsins um stund. Í stöðunni 11-10 spýtti Saga þó í lófana og gaf engin færi á sér lengur. Kórdrengjum tókst ekki að komast á neina siglingu eftir og það og knúði Saga því fram sinn annan sigur á tímabilinu. Liðsheildin var sterk og Sögu hefur tekist vel í síðustu leikjum að dreifa ábyrgð meira til að fækka veikleikum sínum og finna lausnir á því sem hefur verið að há þeim hingað til.

Lokastaða: Saga 16- 10 Kórdrengir

Kreppa og stigaleysi Kórdrengja heldur því áfram og ljóst að þeir þurfa að taka á honum stóra sínum ætli þeir sér að spila áfram í efstu deild. Í næstu viku bíður þeirra ærið verkefnið þegar liðið mætir Þór, þriðjudaginn 23. nóvember. Saga leikur hins vegar gegn Fylki næsta þriðjudag og á þá góðan möguleika á að halda klifri sínu upp töfluna áfram og koma sér kyrfilega fyrir á miðjunni. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir