Mikið hefur verið fjallað um blóðtökur mera eftir að alþjóðleg dýraverndunarsamtök frumsýndu heimildarmynd, sem varpaði ljósi á slæma meðferð á hryssunum á nokkrum bæjum. Matvælastofnun hefur upplýst um að almennt sé aðbúnaður góður og eftirlit strangt, en að þessi atvik verði rannsökuð ofan í kjölinn.
Blóðtökutímabilið varir að hámarki í tvo mánuði, síðsumars og fram á haust. Tekið er vikulega úr hryssunum, allt að fimm lítra í senn, átta sinnum að hámarki. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er þó sjaldgæft að svo mikið blóð sé tekið úr hestunum. Þá sýni rannsóknir fram á að blóðtakan sé innan ásættanlegra marka fyrir heilsu þeirra og velferð, og að hryssurnar eigi auðvelt með að vega upp blóðtapið.
Blóðið er tekið úr fylfullum hryssum frá degi fjörutíu á meðgöngu og blóðtakan hefst í kjölfarið. Tekið er vikulega úr þeim, svo lengi sem hormónið mælist í blóðinu. Blóðtakan hefur verið stunduð hér í yfir fjörutíu ár og er tilgangurinn að safna hormóninu eCG sem notað er til framleiðslu frjósemislyfja svína til manneldis.
Þjáðist dögum saman
Í heimildarmyndinni má dæmi um að hrossin séu barin og slegin, tjóðruð niður og geymd í þröngum blóðtökubásum. Þá er sömuleiðis fylgst með hryssu sem sýnilega var slösuð á fæti, með fimm sentímetra sár, sem var orðið sýkt og farið að grafa í.
Í umfangsmikilli skýrslu dýraverndunarsamtakanna, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að búið hafi verið að spreyja bláum sótthreinsivökva á sárið en að slík meðferð eigi einungis við um grunn sár. Hópurinn fylgdist með merinni í fjóra daga og fékk þá svar frá Matvælastofnun þar sem honum var bent á að hafa samband við lögreglu.
Líftæknifyrirtækið Ísteka ber ábyrgð á blóðtökum mera hér á landi en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki viljað veita fréttastofu viðtal vegna málsins. Arnþór Guðlaugsson, forstjóri Ísteka, segir hins vegar í skriflegu svari að fyrirtækið sé sjálft með blóðmerahald, og hafi verið með á milli tvö til þrjú hundruð hryssur í blóðgjöfum á þessu ári á nokkrum bæjum. Umhirða hrossanna sé í höndum utanaðkomandi aðila og eftirlit með þeim sé eins og hjá öðrum bændum.
„Hagnaður/tap af þessum hryssum hefur ekki verið reiknaður sérstaklega,“ segir Arnþór í svari sínu.
Starfsemi fimm hrossabænda sem stunduðu blóðtöku hefur á síðustu árum verið lokað. Matvælastofnun segir í skriflegu svari að rannsókn málsins sé enn á frumstigi. Spurð hvort einhver mál séu komin á borð lögreglu, eða hafi komið á borð lögreglu á undanförnum fimm árum, er svarið nei.