Síðustu daga hefur fólk stigið fram og lýst hræðilegu ofbeldi sem það varð fyrir á barnaheimli hjónanna Einars og Beverlyar Gíslason á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar. Hjónin voru síðar með dagvistun og leikskóla í Garðabæ á árunum 1998-2015.
Eftir umfjöllun í fjölmiðlum um heimilið hafa bæjarstjórar á Akureyri og Garðabæ lýst yfir mikilvægi þess að starfshættir hjónanna verði rannsakaðir. Fram kom á vef Garðabæjar í gær að vinna væri hafin við að afla nánari upplýsinga um störf hjónanna í Garðabæ.
Jón Björnsson sem var félagsmálastjóri á Akureyri gerði á sínum athugasemdir við starfsemi Hjalteyrarheimilisins hefur sagt eftir að málið kom upp að ósanngjarnt sé að rannsaka ekki heimilið.
Halldór Þormar Halldórsson umsjónarmaður sanngirnisbóta sagði í fréttum okkar í gær að rétt væri að endurvekja vistheimilisnefnd vegna ásakana um illa meðferð á Hjalteyrarheimilinu en líka á öðrum heimilum sem vistuðu börn. Vistheimilisnefnd hafi ekki klárað öll málin sem komu upp.
Ennþá á eftir að rannsaka margar ábendingar og heimili
Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa meðal annars komið fram athugasemdir um illa meðferð á börnum á síðustu öld á Vöggustofu Thorvaldsen, barnaheimilinu Vorboðanum að Rauðhólum, í Laugarnesskóla, á upptökuheimili að Dalbraut í og vistheimili við Njörvasund en bæði síðastnefndu heimilin voru í Reykjavík.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í fréttum okkar í gær að full ástæða væri til að fara yfir málefni Hjalteyrarheimilisins. En ekki kom skýrt fram hver ætti að gera það.
Fréttastofa hefur síðustu daga reynt að fá svör við hver eða hvort stjórnvöld hyggjast rannsaka illa meðferð á börnum á Hjalteyri og síðar feril hjónanna í Garðabæ. Í fyrirspurnum hefur komið fram að það sé á hendi dómsmálaráðuneytisins að ákveða hvort farið verður í slíka rannsókn.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur nú verið ákveðið að forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið vinni saman að lausn í málinu. Það skýrist væntanlega í dag hver niðurstaðan verði.