Skoðun

Takk kæra þjóð

Einar Hermannsson skrifar

Jólaálfasölu SÁÁ lauk nú á sunnudaginn og fór hún fram úr björtustu vonum þrátt fyrir veður. Mig langar að nota tækifærið og þakka okkar dygga sölufólki og stuðningsfólki sem keypti jólaálfinn. Með ykkar framlagi getum við tryggt heilsársopnun árið 2022 á göngudeildum okkar og eftirmeðferðastöð á Vík. Sjálfsaflarfé sem SÁÁ safnar á hverju ári skilar sér beint í meðferðarstarfið og gerir okkur kleift að bjóða uppá meiri þjónustu en ríkið greiðir fyrir.

Nýr heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sagði í viðtali við upphaf jólaálfasölunnar að slíkt framtak væri mikilvægt og að almennt gengi vel að afla sjálfsaflarfé hjá SÁÁ svo og öðrum almennaheilasamtökum. Það eru orð að sönnu en breytir ekki þeirri staðreynd að árlega greiðir SÁÁ að stærstum hluta þær 300 milljónir króna sem nauðsynlegar eru fyrir 600 innlagnir á Vog og viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn.Hlýtur það að vera forgangsverkefni hjá nýrri fjárlaganefnd að tryggja það fé til reksturs SÁÁ enda næg önnur verkefni sem samtökin greiða fyrir með sjálfsaflarfé að fullu eða að hluta til.

Má þar m.a. nefna sálfræðiþjónustu barna, meðferð við spilafíkn, eftirmeðferðastöðina á Vík, sem er skilgreind sem dagdeild hjá Sjúkratryggingum Íslands en er í raun 28 daga innlagnarmeðferð, fjarþónusta sem er mjög mikilvæg þeim sem búa úti á landi, og menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem er eina menntunin innan heilbrigðisgeirans sem ríkið greiðir ekki fyrir.

Ég hef þá trú að með sameiginlegu átaki þjóðar,alþingis og fagfólks getum við því gert miklu betur. Munum að sjúkdómurinn hefur ekki bara áhrif á þann sem glímir við hann heldur einnig fjölskyldu hans, vinnu og heilbrigðis- félagskerfið.

Ég óska landsmönnum gleðilegrar hátíðar.

Jólaálfakveðja,

Einar Hermannsson

Höfundur er formaður SÁÁ.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×