Nunes var fyrst kjörinn á þing árið 2002, þá þrítugur, en í fyrra var hann kjörinn í tíunda sinn og átti að sitja á þingi til minnst 2023. Síðasta kjörtímabil reyndist honum þó nokkuð erfitt. Hann vann andstæðing sinn úr Demókrataflokknum með naumindum og baráttan svo gott sem tæmdi kosningasjóði hans.
Þá hafa Demókratar í Kaliforníu unnið að því að breyta kjördæmi hans í Kaliforníu svo honum gæti reynst mjög erfitt að ná endurkjöri árið 2023, samkvæmt frétt Politico.
Í frétt Washington Post segir að ef Repúblikanar nái aftur meirihluta í fulltrúadeildinni á næsta ári hefði Nunes getað orðið formaður einnar valdamestu nefndar fulltrúadeildarinnar.
Einn helsti stuðningsmaður Trumps
Nunes hefur á undanförnum árum skipað sér sess meðal helstu stuðningsmanna Trumps á þingi. Í tilkynningu um vistaskiptin sagði hann að nú væri tími til kominn til að „enduropna“ internetið og leyfa frjálst flæði hugmynda og tjáningar án ritskoðunar.
Hann sagði Bandaríkin hafa gert drauminn um internetið að raunveruleika og það yrði bandarískt fyrirtæki sem myndi endurvekja drauminn.

TMTG ætlar að opna nýjan samfélagsmiðil á næsta ári en hefur í raun ekki gefið neitt út enn. Fyrirtækið hafði gefið út að beta-útgáfa nýs samfélagsmiðils yrði opinberuð í síðasta mánuði en það gerðist ekki.
Þá hafa einungis tveir háttsettir starfsmenn fyrirtækisins verið opinberaðir, áður en Nunes kom til sögunnar. Það er Trump sjálfur sem stjórnarformaður, og Scott St. John, sem er yfir streymismálum hjá fyrirtækinu.
Sjá einnig: Trump reiður yfir litlum vinsældum og lokar bloggsíðunni
Strax til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu
Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna er með þetta nýjasta fyrirtæki Trumps til skoðunar. Það er vegna samkomulags sem fyrirtækið gerði við Digital World Acquisition Corp um skráningu TMTG á mörkuðum.
Samkvæmt frétt BBC hefur stofnunin leitað eftir skjölum um fjárfesta og viðskipti fyrirtækisins en áðurnefnt samkomulag felur í sér sameiningu fyrirtækjanna tveggja og þar af leiðendi markaðsskráningu TMTG.
Í skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu sem birt var í gær eru tveir starfsmenn TMTG nefndir sem Josh A. og Billy B. Sá fyrrnefndi er sagður fara fyrir tæknimálum og sá síðarnefndi er yfirmaður vörumála.
Í fjárfestakynningu segir að TMTG muni keppa við tæknirisa eins og Twitter, Amazon og Disney Plus á næstu árum og að notendafjöldi þess gæti verið orðinn 81 milljón árið 2026 og tekjur 3,5 milljarðar dala.