„Við fengum athugasemdir frá strákunum um að það væri ekkert námskeið fyrir þá svo að við buðum upp á strákahelgar. Það var enginn hljómgrunnur fyrir því en þegar við fórum að bjóða upp á blandaðar helgar fyrir nokkrum árum þá fór þetta að ganga hjá okkur og við fengum strákana með.“
Löngum hefur fólk stundað að fara í ferðir erlendis til að skíða á veturnar og gera þá vel við sig í leiðinni: Gista á hóteli og njóta matar og drykkjar í bland við útivist og hreyfingu og skemmtilega samveru með vinum og vandamönnum.
Hólmfríður Vala segir hins vegar að skíðagönguhelgarnar á Ísafirði séu svo sannarlega á pari við ferðir erlendis. Þá segir Hólmfríður Vala Covid ekki hafa breytt miklu fyrir ferðaþjónustuna fyrir vestan, að undanskildu því að fram að Covid voru sumargestirnir nær eingöngu erlendir.
En Íslendingar hafa líka búið sér til sín eigin tækifæri. Til dæmis með Landvættum.
Landvættir og það varð allt vitlaust….
Hólmfríður Vala er alltaf kölluð Vala. Hún og eiginmaður hennar, Daníel Jakobsson, reka gistingu á fimm stöðum á Ísafirði: Hótel Ísafjörð Torg og Horn, Gamla Gistihúsið sem er á tveimur stöðum og á sumrin Hótel Torfnes, sem áður var Hótel Edda. Þá reka þau veitingastaðinn Pollinn.
Síðustu árin hefur hótelið lagt aukna áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustu á Ísafirði fyrir allt árið um kring. Þá sérstaklega með því að bjóða upp á vinsæl gönguskíðanámskeið á Seljalandsdal.
„Vestfirðir eru stór náttúruperla með endalausum möguleikum, jafnt að sumri sem vetri. Íslendingar eru að uppgötva Vestfirðina og það er frábært að taka á móti gestum sem hafa aldrei komið hingað áður og eru að upplifa svæðið í fyrsta sinn,“ segir Vala.
Vala segir að í raun hafi Landvættir haft meiri áhrif en heimsfaraldurinn.
Því í Landvættum þarf að leysa eina þraut í hverjum landsfjórðungi.
Ein af þessum þrautum er skíðaganga og það má segja að það hafi allt orðið vitlaust í sportinu við það. Iðkenda fjöldinn margfaldaðist og þá um leið eftirspurnin eftir leiðsögn.“
Þá segir Vala Landvætti hafa opnað tækifæri fyrir almenning að taka þátt í íþróttaviðburðum.
„Það er mikill hreyfi áhugi hjá okkur Íslendingum og okkur finnst gaman að prófa eitthvað nýtt. Þegar Landvættaprógramið var sett á var komið tækifæri fyrir almenning að taka þátt í íþróttaviðburðum. Það var því mikil áskorun fyrir marga að læra á skíðin. Fyrir okkur sem höfum alltaf verið í þessu sporti var mjög gaman að sjá íþróttina stækka og fá fleiri með.“

Menning að myndast í kringum skíðaferðir
„Við erum alveg sannfærð um að skíðagönguhelgarnar okkar séu á pari við ferð erlendis og finnum fyrir miklum áhuga hjá vinahópum og fjölskyldum að skella sér vestur. Fólk er að gera vel við sig í mat og drykk og skíðar eins og engin sé morgundagurinn,“ segir Vala og bætir við:

„En svo er það einmitt það að það er að myndast þessi menning að fara í skíðaferðir, ekki endilega að fara á námskeið heldur bara að skíða sjálfur. Nota vetrarfrí barnanna og taka langar helgar.“
Vala segir stöðuna alls ekki þannig að allir sem komi í skíðaferð séu þaulvanir skíðamenn.
„Sumir eru vanir á svigskíðum á meðan aðrir hafa aldrei stígið á skíði, hvorki gönguskíði né svigskíði.“
Þá segir hún námskeið vinsæl, bæði hjá þeim sem vilja læra meira en eins að fólk vilji fá leiðsögn til að nýta betur þá fjárfestingu sem skíðabúnaðurinn er.

Vala segir áberandi að nú séu konurnar að draga karlana sína með á námskeið og oft komi vinahópar saman.
Strákarnir voru kannski meira þannig að þeir þurftu ekki leiðsögn. Vildu bara læra þetta sjálfir. En það er allt breytt, nú eru þeir óhræddir við að vera byrjendur, detta fyrir framan alla og fá leiðsögn.“
Sjálf hefur Vala mikla trú á þeim tækifærum sem veturinn getur gefið ferðaþjónustunni, sérstaklega á Ísafirði þar sem hún segir svæðin allt í kring hreinlega frábær.
„Við viljum kalla okkur Skíðagöngubæinn, fjallaskíðabæinn eða bara Skíðafjörð. Hér eru endalaus tækifæri til að leika sér í snjónum,“ segir Vala og bendir á að það séu ekki bara gönguskíðin sem henti vel á svæðinu heldur séu þar góð svæði líka fyrir svigskíði, fjallaskíði, utanbrautarskíði, snjósleða og allt vetrarsport.
Á Ísafirði njóti líka viðburðarhelgar og vikur sífellt meiri vinsælda yfir veturinn. Til dæmis Fossvatnsgangan og Skíðavikan.
Við segjum alltaf að við ábyrgjumst ekki veðrið en upplifunin verður geggjuð. Fólkið sem sækir okkur heim er ævintýrafólk sem elskar óveður jafn mikið og sól og logn.“