Því með kerfi nýsköpunarfyrirtækisins Opus Futura gerist nákvæmlega það sama:
Ef einstaklingur í atvinnuleit parast vel við vinnuveitanda sem er að leita að starfsfólki, smella hlutirnir þannig saman að úr verður hið eftirsótta „match.“
„Áskorun fyrirtækja er að hæfum umsækjendum fer fækkandi og að erfitt getur reynst að fá besta fólkið til að sækja um. Það má meðal annars rekja til minnkandi trausts fólks á ráðningaferlinu og meðferð gagna. Við leggjum áherslu á að allir á vinnumarkaði, hvort sem þeir eru í virkri atvinnuleit eða ekki, geti fengið tækifærin til sín án þess að þurfa að sækja um störf.,“ segir Helga Jóhanna Oddsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Opus Futura.
Sömu tækifæri fyrir Jón og séra Jón
Í stuttu máli má lýsa nálgun Opus Futura þannig að kerfið sér um að para einstaklinga og vinnuveitendur saman og býður síðan þeim sem parast best að taka ákvörðun um það, hvort viðkomandi vilji samþykkja pörunina.
Á vefsíðunni segir:
Með því að skrá þig á Opus Futura kemurðu sjálfkrafa til greina í öll laus störf sem skilgreind verða í lausninni.
Ekkert umsóknarferli, kynningarbréf eða óvissa um hver er að skoða gögnin þín.
Á Opus Futura ertu alltaf undir nafnleynd, kynlaus og aldurslaus þar til þú samþykkir að koma til greina í starf sem þú parast við.
Að sama skapi fá vinnuveitendur upplýsingar um hverjir passa strax við tiltekið starf og þurfa því ekki að eyða tíma í að flokka tugi umsókna, sem ekki uppfylla skilyrði.
Þar skipti mestu að horft sé til eiginleika hvers og eins, frekar en kyn, aldur eða menntun.
„Það hvernig þú tileinkar þér hluti, hvort þú komir þeim í framkvæmd, getir hvatt aðra til góðra verka og fleira; þetta eru allt eiginleikar sem hafa mikið forspárgildi og segja miklu meira um það hvort þú passir við það sem vinnuveitandinn er að leita að,“ segir Helga og bætir við:
Mér finnst við reyndar löngu eiga verið kominn á þann stað að það eigi ekki að skipta máli af hvaða kyni eða kynslóð þú ert.
Fá störf í dag krefjast yfirburðar líkamskrafta eins og áður og í dag er hægt að aðlaga öll störf rétta einstaklingnum.
Rétt pörun byggir á kröfum starfsins um til dæmis færni, reynslu og tungumálakunnáttu og ef hún næst, skipta þessir þættir engu máli.“

Ráðningar þróast eins og annað
Opus Futura ætlar sér stóra hluti. Enda nýsköpunarfyrirtæki, stofnað árið 2022 og á hraðri uppleið inn á íslenska vinnumarkaðinn.
Helga segir þó mikla grósku í þessum málum hérlendis og erlendis. En engar lausnir nálgist ráðningaferlið með sama hætti og Opus Futura. Kerfi Opus Futura getur hins vegar tengst öðrum lausnum, til dæmis mannauðskerfum þegar einstaklingur hefur verið ráðinn í starf.
Sjálf telst Helga hokin af reynslu þegar kemur að mannauðsmálum. Starfaði til dæmis sem fræðslu- og mannauðsstjóri í fjármálageiranum fljótlega eftir útskrift, sem mannauðsstjóri Reykjanesbæjar og hjá Opnun kerfum þar sem hún stýrði rekstrarsviði með mannauðs-, gæða- og markaðsmálum. Frá árinu 2012 sinnti Helga svo ráðgjöf á sviði rekstrar og mannauðsmála.
Helga þekkir líka af eigin raun, hvernig ráðningabransinn tekur breytingum eins og allt annað.
„Fyrsta vinnan mín eftir nám var hjá ráðningarþjónustunni Ráðgarði sem þá var og hét,“ segir Helga og hlær; forvera Capacent og síðar VinnVinn.
„Stærsta byltingin sem var í gangi á þeim tíma var að hægt væri að auglýsa störf í lit í blöðunum,“ segir Helga og nú er varla hægt annað en að skella upp úr.
Helga er alin upp í Keflavík og af þeirri kynslóð sem byrjaði ung að vinna.
„Pabbi var útgerðarmaður og skipstjóri þannig að ég fór ung að vinna í fiski og á sjó. Er mikil pabbastelpa og á bara bræður og syni. Var þó í bland viðkvæmt blóm og ætlaði að verða hjúkka. Á endanum tók ég þó viðskiptafræðina með áherslu á starfsmannamál eins og mannauðsmálin kölluðust þá.“
Sem nýsköpunarfyrirtæki hefur Opus Futura þegar hlotið fyrstu styrkina sína. Hlaut fyrst styrkinn Fræ og síðan Sprota.
„Og það segir líka svolítið mikið að fyrrverandi yfirmennirnir okkar fjárfestu í okkur,“ segir Helga og brosir. Því innanborðs eru fjárfestarnir nokkrir, þar á meðal fyrrum yfirmenn hennar og Einars Arnar Ólafssonar meðstofnanda hennar.
Fyrirhuguð er lota í fjármögnun. Sem Helga segir mikið lærdómsferli.
„Við erum háð fjármögnun og styrkjum á meðan við erum í þróunarfasanum en það að leita af fjármögnun er mjög lærdómsríkt ferli. Við fórum í okkar fyrstu lotu í fyrra, þegar vaxtaumhverfið var mjög erfitt og margir af stærri sprotunum voru sjálfir í fjármögnun. Við vorum því eins og lítið krækiber mitt í þessu öllu saman en gekk vel og erum ótrúlega heppin með fjárfesta.“
Er markmiðið að sækja á erlenda markaði?
„Já, við höfum alltaf séð fyrir okkur að fyrirtækið sé skalanlegt og geti starfað á öllum mörkuðum. Erum að horfa til Norðurlandanna fyrst til að byrja með og þaðan víðar til Evrópu.“

Rétta pörunin
Helga segir of mikla sóun í gangi þegar kemur að ráðningamálum. Á því séu svo sem líka einfaldar skýringar.
Helga nefnir dæmi.
„Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef skrifað margar ferilskrár eða kynningarbréf fyrir fólk. En þegar svo er, hver er það þá í raun sem er að endurspeglast í gögnunum?“ spyr Helga og bætir við:
Svo ekki sé talað um þegar mannauðsfólk fellur í þá freistni að fletta viðkomandi upp á Facebook og sjá hverjir eru mögulegir sameiginlegir vinir.“
Helga segir þessa nálgun þó á engan hátt auka líkurnar á að réttur einstaklingur sé ráðinn til starfa. Þótt margt fólk sé öflugt í að byggja upp ákveðna ásýnd eða vörumerki. Til dæmis á LinkedIn.
„En þú getur verið frábær í markaðsmálum og að halda úti ímynd. Sem þarf alls ekki að þýða að þú sért frábær liðsmaður fyrir fyrirtækið sem er að auglýsa starfið.“
Aftur leiðist því talið að þeim eiginleikum sem hvert og eitt okkar býr yfir, en til að draga þessi karaktereinkenni fram, tekur fólk persónuleikapróf þegar það skráir sig til leiks hjá Opus Futura.
Nálgunin þar er þó einnig öðruvísi en gengur og gerist.
„Því hjá okkur fær einstaklingurinn að sjá niðurstöðurnar fyrstur allra. Sem er ólíkt því sem gildir annars staðar, þar sem annað fólk sér niðurstöðurnar fyrst. Í sumum tilfellum er það jafnvel þannig að umsækjendur fá ekki einu sinni að sjá niðurstöðurnar. Sem þýðir að sá sem tók prófið, hefur ekki hugmynd um við hvað verið er að styðjast við þegar mat á hæfni fer fram.“
Þá segir Helga að ráðningaferlið eins og það hefur verið, oft leiða til þess að fólk og fyrirtæki parist ekki rétt saman.
„Mannauðurinn er takmörkuð auðlind og þess vegna er svo mikilvægt að vinna betur að því að finna bestu pörunina. Því þannig náum við að tryggja atriði eins og lægri starfsmannaveltu, meiri helgun fólks í starfi og aukna starfsmannaánægju.
Til þess að þetta náist þurfum við að kafa dýpra en við höfum gert áður og leiðin til þess að gera það, er að setja einstaklinginn sjálfan framar í ferlið miðað við hvernig staðið er að ráðningum í dag.“