Sagan endurtekur sig og Dusty vinnur enn og aftur

Snorri Rafn Hallsson skrifar
dusty - saga 10122021

Þau stóru tíðindi bárust daginn fyrir leik að rifflaspilarinn Midgard hefur sagt skilið við Dusty. Þrátt fyrir góðan árangur á tímabilinu sem Dusty hefur hingað til farið í gegnum taplaust hefur liðið metið það sem svo að leita þurfi nýs leikmanns til að spila með kjarna liðsins. Fyrr á tímabilinu hafði Pallib0ndi gengið til liðs við Dusty, aðallega til að taka þátt í streymi þeirra en nú var hann kallaður inn af bekknum þegar liðið mætti Sögu í Overpass. Það reyndist hin skemmtilegasta viðbót við lið Dusty sem var í fantastuði í gegnum allan leikinn.

Liðin mættust í Overpass þar sem Saga hafði beðið afhroð gegn XY í síðustu umferð. Mikið reið á að ADHD kæmist í gang en snemma varð ljóst að Dusty voru einfaldlega miklu betri. Strax í hnífalotunni mættu Dusty til leiks með áætlun og skipulag og unnu lotuna. Dusty byrjaði því í vörn og Saga þurfti að sækja (Terrorists). Fyrstu lotur leiksins voru stuttar þar sem Dusty stráfelldi leikmenn Sögu alls staðar á kortinu og voru aðgerðir Dusty einfaldari en oft áður. Á móti voru þær framkvæmdar af mikilli nákvæmni og leikgleði sem skilaði sér í hverri fellunni og lotunni á fætur annarri. Ekki örlaði á neinu kæruleysi eins og svo oft áður og hafði liðið því algjöra stjórn á leiknum þar sem Eddezennn fór fremstur fyrir sínum mönnum. Það var ekki fyrr en í stöðunni 11-1 fyrir Dusty sem Saga komst á örlítinn sprett og vann þrjár lotur í röð, en þar með var þeirra þætti í leiknum lokið og enn og aftur sást að þegar ADHD nær sér ekki í gang á liðið litla von.

Staða í hálfleik: Dusty 11 - 4 Saga

Í síðari hálfleik las Dusty vörn Sögu eins og opna bók og mætt því lítilli andspyrnu. Dusty lék sér því að því koma sprengjunum fyrir og kláraði Thor leikinn á stórskemmtilegan hátt þar sem hann felldi fjóra leikmenn Sögu og kom sprengjunni fyrir til að tryggja Dusty enn einn sigurinn.

Lokastaða: Dusty 16 - 4 Saga

Dusty sitja sem fastast á toppnum og verður áhugavert að sjá hvort Pallib0ndi verður fastamaður í liðinu en hann stóð sig sem áður gríðarlega vel. Í öllu falli verður hann í leikmannahópnum þegar Dusty mætir Ármanni, gamla liði Palla, á föstudaginn í næstu viku, en næsta þriðjudag mætir Saga Vallea. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir