Á Skjólgarði búa 27 íbúar á aldrinum 70 ára til 98 ára. Allir íbúarnir búa í tvíbýli í litlum herbergjum nema tveir einstaklingar, sem eru í einbýli. Búið er að teikna og hanna nýtt hjúkrunarheimili á staðnum fyrir 30 manns og bjóða verkið út, sem átti að vera löngu hafið. Hnífurinn í kúnni stendur hins vegar að ná kostnaðaráætlun verksins niður því lægsta tilboðið var langt yfir kostnaðaráætlun. Á meðan búa íbúarnir við algjörlega óboðlegar aðstæður.

Síðustu þrjá föstudaga hafa verið mótmæli á hjúkrunarheimilinu með kröfuspjöldum um að nýtt hjúkrunarheimili rísi strax en það átti að vera tilbúið í ár.
Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar segir ástandið ömurlegt.
„Það er enginn með sér salerni, það er verið að deila salerni, deila sturtuaðstöðu, það er engin aðstaða fyrir fólkið til að eiga neitt einkalíf. Það er heldur enginn staður, sem fólkið getur sest niður og talað við sína nánustu. Það þarf að skipuleggja allar sturtuferðir mjög vel því það eru svo fáar sturtur hjá okkur,“ segir Jóhanna Sigríður og bætir við.

„Þetta eru mjög lítil herbergi og ég er ekki einu sinni viss um að þau myndu standast staðla í dag fyrir einbýli en það eru samt tveir í þeim. Þetta eru ömurlegar aðstæður fyrir þetta fólk.“
Jóhanna Sigríður segist ekki hafa neitt heyrt í nýjum heilbrigðisráðherra eða einhverjum úr ríkisstjórninni vegna ástandsins á Skjólgarði og það viti engin hvernig málið þróist eða fari.
Af hverju förum við svona illa með gamla fólkið okkar?

„Af því að við viljum alltaf vera að hugsa eitthvað annað, peningarnir fara eitthvert annað, ég veit ekki hvert,“ sagði Jóhanna mjög ósátt og leið yfir ástandinu á Skjólgarði.
