Skoðun

Börn og lyfjatilraunir

Þorsteinn Siglaugsson skrifar

Undanfarnar vikur og mánuði hefur harður áróður verið rekinn fyrir bólusetningu ungra barna við Covid-19. Í síðustu viku var gefið verulega í. Fyrstur reið á vaðið Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir með ógnvekjandi tölur um þá hættu sem börnum væri búin af Covid-19 og fjarstæðukenndar fullyrðingar um hættu á langtímaafleiðingum. Í kjölfarið birtust viðtöl við Valtý Thors barnalækni, Ásgeir Haraldsson prófessor og fleiri, sem bergmáluðu fullyrðingar Þórólfs með ýmsum tilbrigðum.

Trúverðugleikinn brostinn

Fljótlega kom á daginn að Þórólfur hafði tvöfaldað allar tölur í skýrslunni um innlagnir, gjörgæslumeðferð og dauðsföll barna, auk þess sem hann tók ekkert tillit til þess einungis lítill hluti raunverulegra smita greinist yfirleitt, t.d. um fjórðungur í Bandaríkjunum og á heimsvísu allt að einn tuttugasti.[i] Sé þetta tekið með í reikninginn er nær lagi að ætla að 10-20 börn hérlendis myndu leggjast á sjúkrahús ef þau smituðust öll, ekki allt að 200 líkt og Þórólfur hélt fram í upphafi. Ekkert barn myndi látast. Þórólfur hefur síðan viðurkennt ýkjurnar um þetta efni að hluta. En aðrar hefur hann ekki leiðrétt, til dæmis að 3-5 af hverjum tíu sem smitast af Covid-19 glími við alvarlegar langtímaafleiðingar. Það væru að lágmarki sex þúsund manns og vafalaust hefði nú einhver tekið eftir því!

Áhætta og ávinningur

Laugardaginn 18. desember, í kjölfar fjölmennra mótmæla gegn bólusetningu barna, brást svo Magnús Karl Magnússon prófessor við gagnrýni á lyfjatilraunir á heilbrigðum börnum. „Það er svo sannar­lega ekki slæmt að gera til­raunir á börnum ... nú erum við svo heppin að þessar tilraunir liggja fyrir.“ skrifaði Magnús í pistli sem að stórum hluta var birtur á Vísi[ii]. Þar vísar hann til tilraunar Pfizer með bólusetningu ungra barna, og virtist draga þá ályktun að niðurstöður hennar staðfesti að bóluefnin séu þeim hættulaus. „Hættan af bólu­efnunum er mun minni en sú hætta sem fylgir því að barnið fái ekki bólu­efni og eigi á hættu að fá sýkingu með fylgi­kvillum“ segir hann orðrétt.

En í rannsókninni er skýrt tekið fram að í henni er ekki lagt mat á hættu á sjaldgæfum eða langvinnum aukaverkunum. Heildarrannsókn Pfizer á áhrifum bóluefnisins á börn og ungt fólk lýkur raunar ekki fyrr en árið 2026.[iii] Bóluefnin fyrir ung börn eru seld undir svonefndu neyðarleyfi (e: emergency authorization) og teljast því ekki fullprófuð lyf.

Sú ályktun Magnúsar að öryggi efnanna fyrir börn sé staðfest er því röng: Við fyrirhugaða bólusetningu barna verður notast við lyf á neyðarleyfi, aukaverkanir þeirra fyrir aldurshópinn eru órannsakaðar, en fyrir liggur að þau hafa leitt hafa til 75-földunar tilkynntra aukaverkana hérlendis í öðrum aldurshópum[iv]. Það er alvarlegt mál í ljósi þess hversu gríðarlega lítil hætta börnum er búin af sjúkdómnum. Samkvæmt nýrri þýskri rannsókn sem nær fram í maí 2021 hefur ekkert heilbrigt 5-11 ára barn látist þar í landi vegna Covid-19 frá upphafi faraldursins, svo dæmi sé nefnt.[v]

Við getum fylgt fordæmi Finna

Franska læknaakademían hefur nýverið mælt gegn bólusetningu heilbrigðra 5-11 ára barna.[vi] Finnsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að heilbrigð 5-11 ára börn verði almennt ekki bólusett, en börnum í áhættuhópi og þeim sem deila heimili með fólki í áhættuhópi verði boðin bólusetning.[vii] Ég hvet heilbrigðisráðherra til að skoða vel röksemdir finnskra yfirvalda fyrir þessari ákvörðun, sem mér virðist lýsa skynsemi, varkárni og virðingu fyrir hagsmunum barna.

Höfundur er hagfræðingur.


[i] https://www.ecdc.europa.eu/en/publications-data/interim-public-health-considerations-covid-19-vaccination-children-aged-5-11, https://www.cdc.gov/coronavirus/2019-ncov/cases-updates/burden.html, https://onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1111/eci.13554

[ii] https://www.visir.is/g/20212198020d/sannar-lega-ekki-slaemt-ad-gera-til-raunir-a-bornum

[iii] https://clinicaltrials.gov/ct2/show/NCT04816643

[iv] Samkvæmt svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn þann 1.11.2021 voru 9 tilfelli aukaverkana vegna flensubólusetninga tilkynnt 2019. Um 70.000 voru bólusettir við flensu. Tilkynningarnar eru nálægt 5.900 það sem af er þessu ári, af tæplega 290.000 bólusetningum. https://www.lyfjastofnun.is/covid-19/aukaverkanatilkynningar-vegna-covid-19/, https://www.covid.is/tolulegar-upplysingar-boluefni

[v] https://www.medrxiv.org/content/10.1101/2021.11.30.21267048v1.full.pdf

[vi] https://www.academie-medecine.fr/should-children-be-vaccinated-against-covid-19/?lang=en

[vii] https://news.yahoo.com/finland-limit-childrens-covid-19-143038445.html




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×