Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju, segir að jólamessur verði á sínum stað í dag, klukkan sex og á miðnætti, en með örlítið breyttu sniði en áður vegna samkomutakmarkana.
„Við erum vön hér að geta verið þúsund manns og sungið saman, sem er um það bil það himneskasta sem til er. En núna í þessum aðstæðum þá eru takmarkanir og þá er þetta bara einfaldlega eins og þú segir, að stíga inn í nútímann, og við streymum. Við streymum athöfnunum [í dag] og jólamessunni líka klukkan tvö á jóladag,“ segir Sigurður.
Þið styðjist eitthvað við hraðpróf, er það ekki?
„Jú, fólk þarf að vera búið að fara í hraðpróf. Fólk var í dag og ég var sjálfur í dag að fara í hraðpróf til þess að vera nú örugglega ekki smitaður. Við biðjum fólk um að koma í kirkjuna og við getum tekið á móti fjögur hundruð í Hallgrímskirkju [í dag] og á jóladag,“ segir Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju.