Verið er að rétta yfir Maxwell, sem er 60 ára gömul, í New York en hún var ákærð fyrir að hafa útvegað Epstein ungar stúlkur sem hann misnotaði og hefur hún einnig verið sökuð um að taka þátt í misnotkuninni. Hún er sökuð um að hafa fært Epstein allt að fjórtán ára gamlar stúlkur til að misnota í húsnæði hans víðsvegar um Bandaríkin og í London milli 1994 til 1997.
Alls hefur hún verið ákærð í átta liðum og þar á meðal fyrir mansal. Hún neitar sök í öllum ákæruliðum. Verjendur hennar hafa haldið því fram að verið sé að gera hana að blóraböggli fyrir slæma hegðun Epsteins.
Epstein svipti sig lífi í fangelsi þann 10. ágúst 2019, þá 66 ára gamall. Það var eftir að hann var ákærður fyrir mansal og önnur brot.
Við vitnaleiðslur sögðu þrjár konur að Maxwell sjálf hefði brotið á þeim.
Áður en málflutningi lauk í málinu gegn Maxwell stóð henni til boða að bera vitni en hún vildi það ekki og sagði saksóknara ekki hafa tekist að sýna fram á sekt hennar.
Sjá einnig: Maxwell neitaði að bera vitni
Kviðdómendur hafa beðið um töflu, upplýsingar um vitnisburð, merkimiða, lagalegar skilgreiningar og skilgreiningar á orðum. AP fréttaveitan segir stöðuna hvorki til marks um að kviðdómendur eigi erfitt með að sammælast um niðurstöðu né það að þau séu skammt frá niðurstöðu.
Þá bað dómarinn kviðdómendur um að gefa sér meiri tíma í dag til að ræða málið og komast að niðurstöðu um sekt Maxwell eða sýknu.
Meðal þess sem kviðdómendur hafa beðið um er eftirrit af vitnisburði manns sem bjó með konu sem hefur sakað Epstein um að brjóta á sér. Hann sagði hana hafa lýst Epstein sem nokkurs konar guðföður sem hefði hjálpað fjölskyldu hennar fjárhagslega vegna veikinda og dauða föður hennar. Hún var fjórtán ára gömul þegar hún kynntist Epstein og sagði seinna við þáverandi kærasta sinn að hjálp Epsteins hefði ekki verið ókeypis, án þess þó að fara nánar út í það.
Kviðdómendur báðu einnig um eftirrit vitnisburðar Juan Alessi, fyrrverandi ráðsmanni Epsteins, sem sagði meðal annars frá því að Maxwell hefði meinað honum að horfa í augun á Epstein.