Regína Ástvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir að staðan sé erfið á nokkrum heimilum sem borgin þjónustar vegna manneklu og gert sé ráð fyrir að næstu daga þurfi að forgangsraða . Þeir skjólstæðingar sem þurfi mesta umönnun og aðhlynningu í heimaþjónustu gangi öðrum framar en sviðið rekur um 70 stofnanir með sólarhringsvistun.
Regína biðlar til sumarstarfsmanna og tímavinnufólks um að skrá sig í sérstaka bakvarðasveit velferðarþjónustu en á velferðarsviði starfa um 3.400 manns á 100 starfsstöðvum. Nú eru 64 starfsmenn sviðsins í einangrun og 77 í sóttkví. Þá hefur einnig verið auglýst eftir nýju starfsfólki í sveitina.
Í tilkynningu frá velferðarsviði segir að reynt verði að skerða þjónustu sem minnst. Stjórnendur sviðsins leggi áherslu á að halda úti órofinni þjónustu eins og kostur er.