Saga stóðst ekki pressuna frá Þór

Snorri Rafn Hallsson skrifar
þór-saga

Rígur hefur ríkt á milli Sögu og Þórs á tímabilinu enda léku flestir leikmenn Sögu undir flaggi Þórs á síðasta tímabili þar sem ADHD og Rean höfðu byggt liðið upp í sameiningu. Rean kaus hins vegar að setja saman nýjan leikmannahóp og fóru ADHD og félagar því sína eigin leið. Gengi Sögu hefur verið upp og ofan en Þór hefur aftur á móti leikið gríðarlega vel á tímabilinu og er í sterkri stöðu í öðru sæti deildarinnar. Bleiki fíllinn í herberginu var svo tilraun Sögu í leikmannaskiptaglugganum til að nappa vappanum StebbaC0C0 yfir til sín, en einhverja hluta vegna gekk það ekki eftir. StebbiC0C0 lék þó ekki með Þór í gær og hefur Allee því tekið við því hlutverki og sinnt með prýði í undanförnum leikjum.

Það var áhugavert að sjá að liðin kusu að mætast í Mirage kortinu en eftir því sem líður á tímabilið hefur það hlotið sífellt meiri spilun. Þórsarar tóku hnífalotuna og byrjuðu í vörn (Counter-Terrorists) á meðan Saga reyndi að koma sprengjunni fyrir í sókninni. Þórsarar spiluðu virkilega vel saman strax frá upphafi, töfðu Sögu í aðgerðum þeirra og í þriðju lotu átti Peterr stórleik einn gegn þremur andstæðingum til að bjarga lotunni fyrir horn og koma Þór í 3-0. Það var þó eldmóður í leikmönnum Sögu sem voru ekki lengi að jafna með einföldum aðgerðum sem fólust í því að halda hópinn og svara atlögum Þórs af festu. Brnr kom Sögu svo yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum með hugmyndaríkri fjórfaldri fellu í níundu lotu úr virkilega slæmri stöðu. Leikurinn var í járnum það sem eftir lifði hálfleiks og gáfu liðin ekkert eftir.

Staða í hálfleik: Þór 8 - 7 Saga

Annað var þó uppi á teningnum í síðari hálfleik þegar Þórsarar bjuggu sig til sóknar. Þór hafði bæði töglin og hagldirnar þar sem ADHD var tekinn út af stöðugum opnunum frá Allee og sprengjum og öðrum búnaði sem dundi á honum þegar hann reyndi að koma sér fyrir annars staðar á kortinu. Saga hefur oft þurft að reiða sig fullmikið á þau tækifæri sem ADHD skapar liðinu og gekk leikáætlun Þórs því að miklu leyti út á að núlla út hans framlag. Þar sem enginn annar gat stigið upp í hans stað féllu allar loturnar í síðari hálfleik, að einni undanskilinni, í skaut Þórs sem vann þar með gífurlega sannfærandi sigur á sínum gömlu bræðrum í Sögu. Því skal þó haldið til haga að ADHD lét mótlætið ekki á sig fá og reyndi fram í rauðan dauðann að búa eitthvað til fyrir lið sitt, en allt kom fyrir ekki þar sem allir leikmenn Þórs voru í fantaformi, hreyfanlegir og hittu einfaldlega betur.

Lokastaða: Þór 16 - 8 Saga

Það er sama sagan með Sögu. Ef ADHD kemst ekki almennilega inn í leikinn á liðið oft ansi erfitt uppdráttar. Nýju leikmennirnir Skoon og Guddi skiluðu ágætu framlagi en enn vantar í liðið þann sprengikraft sem þarf til að sigla sigrum heim. Saga situr því enn í fimmta sæti deildarinnar með 8 stig og mætir Kórdrengjum á föstudaginn í næstu viku. Þórsarar sitja sem fastast í öðru sætinu á eftir Dusty með 18 stig en næsta föstudag takast þessi topplið einmitt á og verður áhugavert að sjá hvort Dusty heldur óslitinni sigurgöngu sinni áfram. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir