Ármann hafði betur á lokametrunum gegn Fylki

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ármann - fylkir

Það voru Fylkir og Ármann sem tókust á þessari fyrstu viðureign umferðarinnar en liðin berjast á mörkum fallsætanna og sátu í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar. Fyrri leikur liðanna var ansi jafn og vann Ármann 16-14 í Nuke. Með sigri gat Fylkir jafnað Ármann að stigum og jafnvel smeygt sér úr fallsæti í fyrsta sinn á tímabilinu. Það var því til mikils fyrir Fylki að vinna og urðu líkurnar að teljast ágætar enda Ármann búið að tapa síðustu þremur leikjum sínum og fara í gegnum miklar mannabreytingar.

Eftir að Ármann bannaði Nuke, líklega vegna ósigursins gegn Kórdrengjum þar í síðustu umferð, lá leið liðanna í Inferno. Ármann hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) svo það féll í skaut Fylkis að koma sprengjunni fyrir í fyrri hálfleik. Það gekk eftir strax í fyrstu lotu, sem og næstu tveimur. Zerq var þar öflugur í hægum sóknarleik Fylkis og felldi meðal annars fjóra andstæðinga í þriðju lotu.

Eftir að hafa ekki komist í gegnum þétta vörn Ármanns á spengjusvæði B þar sem Hundzi og Vargur skelltu öllu í lás gerði Fylkir tilraun til að auka hraðann örlítið, en Ármann var ekki í miklum vandræðum með að verjast því og jafna leika, 3-3, með fullkominni lotu. Voru Fylkismenn þá orðnir blankir á meðan leikmenn Ármanns gátu vopnast vel og komist yfir. Hafandi tapað fimm lotum í röð tók Fylkir leikhlé og gerði tilraun til að finna lausnir á þeim múr sem Ármann stillti upp. Fylkismenn komu þá sterkir til baka og náðu tökum á sprengjusvæðunum með marga leikmenn á lífi án þess að Ármann reyndi að ná þeim til baka. Við það batnaði efnahagur þeirra til muna en Ármann varð þá örlítið árásargjarnari og með fjórfaldri fellu frá Hundza og hreyfanlegri aðstoð Ofvirks vann Ármann hálfleikinn.

Staða í hálfleik: Ármann 9 - 6 Fylkir

Liðin skiptu þá um hlutverk en Ármann hélt uppteknum hætti og vann ekki bara fyrstu lotuna í síðari hálfleik heldur næstu tvær líka. Glæsileg þreföld fella frá Pat batt enda á 6 lotu runu Ármanns og bætti K-Dot um betur með fjórar fellur í næstu lotu. Virtist Fylkir vera að ná tökum á leiknum þegar Ármann beitti blekkingum og snjöllum snúningum til þess að koma sér aftur á blað, en leikurinn var orðinn öllu jafnari en fram að því. Í stöðunni 13-11 fyrir Ármanni gátu bæði lið vopnast til fulls og þreföld fella frá ZerQ í bland við usla sem liðsfélagarnir hans náðu að valda minnkaði muninn enn frekar. Fylkir vann svo næstu lotu þar sem Hundzi var einn gegn tveimur andstæðingum að verja sprengjuna og leikurinn því orðinn jafn og æsispennandi.

Þreföld fella Ofvirks í tuttugustu og sjöundu lotu með vappanum reyndist mikilvæg til að koma Ármanni af stað í lokasprettinum og var almennt ánægjulegt að sjá Ofvirkan loks í essinu sínu í þessum leik. Síðustu þrjár loturnar féllu Ármanni í vil og liðið því ekki á leiðinni í botnsæti í þetta skiptið.

Lokastaða: Ármann 16 - 13 Fylkir

Það sem vantaði upp á hjá Fylki var að allir leikmenn liðsins væru með í að skapa tækifæri og ná fellum. Einstaklingsframtökin komu þeim ekki nógu langt gegn liði Ármanns þar sem fellurnar dreifðust jafnt á liðsmennina sem studdu vel hver við annan. Með sigrinum laumaði Ármann sér í fimmta sætið, upp fyrir Sögu sem þó á leik til góða á föstudaginn. Föstudaginn 4. febrúar mætir Ármann XY, en Fylkir sem situr sem fastast í sjöunda sætinu leikur gegn Sögu þriðjudaginn 1. Febrúar. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir