Skoðun

Átt þú þetta barn?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Þegar yngri dóttir mín fæddist var allt nokkuð hefðbundið. Hún fæddist á Landspítalanum, kom með okkur heim, við kúldruðumst með hana á daginn, horfðum á hana hugfangnar, reyndum að jafna okkur eftir langa fæðingu og aðdraganda á meðan eldri dóttirin fékk útrás á leikskólanum. Foreldrar þekkja þessa fyrstu daga og vikur eftir fæðingu barns. Allt í móki, svefn er afstætt hugtak, ný vera hefur komið í heiminn og allt snýst um hana. Hamingja, óöryggi, nýtt hlutverk.

Þegar dóttir okkar var vikugömul barst okkur bréf frá Þjóðskrá. Þar var mér gert að skrifa undir, og kalla til votta þess efnis, að ég hefði verið samþykk því að konan mín gengi með barnið okkar og að hún hefði gengist undir tæknifrjóvgun. Mamma mín og pabbi fengu svo það hlutverk að votta fyrir að konan mín, eiginkona samkvæmt lögum, hefði ekki haldið framhjá mér og að yngri dóttir mín væri sannarlega mitt barn. Ég fæ ennþá ónotatilfinningu þegar ég hugsa um þetta. Þvílík niðurlæging.

Fólk í gagnkynja hjónabandi þarf ekki að skila neinu sambærilegu. Hin svokallaða pater est regla gerir foreldraskráningu sjálfvirka þegar foreldrar eru karl og kona í hjónabandi, algjörlega óháð því hvort þau hafi þurft að nýta sér tæknifrjóvgun eða nota gjafafrumur. Það er með öðrum orðum innbyggt vantraust í kerfinu í garð hinsegin foreldra. Við endurskoðun barnalaga á síðasta ári bentu Samtökin ‘78 á þessa mismunun, en við höfum hingað til fengið þau svör að ekki sé hægt að hrófla við feðrunarreglunni.

Nýverið tóku gildi lög í Svíþjóð sem gera út um sambærilega mismunun þar í landi. Þar er fólk í hjónabandi nú sjálfvirkt skráð foreldrar barns sem fæðist inn í það, algjörlega óháð kyni foreldranna. Niðurlægjandi bréfasendingar, yfirlýsingar og undirskriftir eru þannig ekki gerðar forsenda þess að foreldraréttindi séu tryggð.

Fordæmið er komið. Ég hvet íslensk stjórnvöld til að uppfæra barnalög og treysta hinsegin foreldrum, rétt eins og öllum öðrum foreldrum, til þess að skrá börn sín rétt. Allir nýbakaðir foreldrar eiga að fá að vera vansvefta í hamingjumóki í friði.

Höfundur er formaður Samtakanna ‘78.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×