Þetta staðfestir Kristján Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vigdísarholts, rekstrarfélags Sunnuhlíðar, í samtali við Vísi. Hann segir að hin látnu hafi verið á níræðisaldri, en vill ekki gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.
Kristján segir að alls hafi rúmlega fjörutíu heimilismenn Sunnuhlíðar greinst með Covid-19 á síðustu dögum en að nú séu virk smit meðal heimilismanna ellefu.
Auk þess greindist nokkur fjöldi starfsmanna og sömuleiðis fór fjöldi þeirra í sóttkví sem hafi orðið til þess að loka hafi þurft iðjuþjálfun og endurhæfingardeild tímabundið til að manna deildir. Það sé þó stefnt að því að opna hinar lokuðu deildir á ný eftir helgi.
Fyrr í vikunni var greint frá því að karlmaður á áttræðisaldri í Sunnuhlíð hafi látist af völdum Covid-19.
Á síðunni covid.is kemur fram að alls hafi 49 manns nú látist af völdum Covid-19 hér á landi.