Framkvæmdastjóri Vigdísarholts, sem rekur meðal annars hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi, segir róðurinn í starfsemi heimilisins hafa verið þungan að undanförnu, þá sérstaklega á síðustu tveimur vikum. Nú sjái hins vegar fyrir endan á því ástandi, þar sem flestir starfsmenn hafi þegar fengið Covid og tekið út sína einangrun.
„Við reiknum með að opna húsið núna á þriðjudaginn í næstu viku og opnum það að hluta til um helgina, með takmarkaðar heimsóknir.“, segir Kristján Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vigdísarholts.
Þannig verði kvöðum sem hvílt hafa á starfsemi heimilisins aflétt og endurhæfing og iðjuþjálfun heimilismanna opna að nýju, sem og hárgreiðslustofan.
Einangrun heilbrigðisstarfsfólks hefur víðar verið vandamál upp á síðkastið, en til marks um það sendi Landspítalinn í gær frá sér ákall um að hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða bráðvantaði á vakt nú um helgina. Við nánari athugun fréttastofu kom þó í ljós að því var fljótlega kippt í liðinn.
Fáir enn smitaðir og þá lítið veikir
Þrír heimilismenn í Sunnuhlíð hafa látist af völdum Covid-19 á síðustu dögum, eftir að hópsmit kom upp á heimilinu. Alls greindust um fjörutíu heimilismenn í hópsmitinu, en fá virk smit eru eftir í þeirra hópi.
„Það eru bara þrír eftir sem eru með einkenni, virk smit. Og þeir eru ekki mikið veikir,“ segir Kristján.
Honum líst vel á fyrirhugaðar afléttingar á sóttvarnatakmörkunum og horfir bjartsýnn fram á veginn, eftir erfiða tíma í starfsemi heimilisins að undanförnu.
„Ég vil bara þakka starfsfólkinu okkar. Það hefur staðið sig alveg frábærlega,“ segir Kristján.