Dusty snöggir að ná sér á strik

Snorri Rafn Hallsson skrifar
dusty vallea

Vallea hafði verið á blússandi siglingu fyrir viðureign kvöldsins gegn Dusty og unnið alla sína leiki í annarri túrneringu Ljósleiðaradeildarinnar. Dusty tapaði hins vegar sínum fyrsta leik á tímabilinu í síðustu umferð þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Þór. Vallea var í þriðja sæti deildarinnar fyrir leikinn og með sigri gat liðið komist nær Þór í öðru sætinu og galopnað stöðuna á toppnum. Myndi Vallea hins vegar tapa væri úti um möguleika þeirra á að vinna deildina.

Það var veisla fyrir aðdáendur Nuke deildarinnar því eftir 66 lotur í Nuke fyrr um kvöldið lá leið Dusty og Vallea beinustu leið aftur að kjarnorkuverinu víðfræga. Ættu áhorfendur Ljósleiðaradeildarinnar því að vera farnir að þekkja kortið eins og lófann á sér eftir þetta kvöld. Í það minnsta eru bæði liðin vön að spila Nuke og hefur Vallea bætt verulega Nuke leik sinn upp á síðkastið.

Eftir langa bið hófst leikurinn loks og Bjarni krækti í hnífalotuna fyrir Dusty með fjórum fellum. Dusty byrjaði leikinn því í vörn (Counter-Terrorists). Í skammbyssulotunni skiptust liðin á mönnum og endaði Goa7er einn gegn tveimur andstæðingum. Með þrefaldri fellu vann hann fyrstu lotuna fyrir Vallea sem einnig vann þá næstu. Cryths sneri þó blaðinu við fyrir Dusty sem voru ekki lengi að jafna, og komast yfir með fjórfaldri fellu frá LeFluff.

Tók Dusty þá 7 lotur í röð þar sem hvorki gekk né rak hjá Vallea í að opna lotur og skapa sér tækifæri og Dusty yfirspiluðu þá alls staðar á kortinu. Leikhlé hjá Vallea skilaði sér ekki í sigri en í algjöri spari tókst þeim aðeins að klóra í bakkann og stöðva valtarann sem Dusty fór fyrir. Skiptust liðin nokkurn veginn á lotum það sem eftir var hálfleiks og reyndist inni-rush vera það eina sem virkaði fyrir Vallea.

Staða í hálfleik: Dusty 9 – 6 Vallea

Dusty vann skammbyssulotuna í síðari hálfleik og með beittum sóknarleik unnu þeir 5 lotur í röð. Aftur yfirspiluðu Dusty Vallea algjörlega og sýndu leikmenn liðsins mikinn styrk í erfiðum stöðum. Bjarni hafði til dæmis betur einn gegn tveimur í sautjándu lotu með 10 hp. Sprengjan fór oftar en ekki niður og hélt Dusty góðum stöðum til að verjast endurtökum.

Útlitið var orðið heldur svart fyrir Vallea þegar Dusty var komið í stöðuna 14–6. Tók Vallea þá leikhlé til að þétta raðirnar og skerpa á leikplaninu. Í kjölfarið opnaði Goa7er lotuna svo Vallea kæmist inn í viðbyggingu og féllu einvígin með Vallea og skilaði það þeim sjöundu lotunni sinni í leiknum. Dusty voru ekki lengi að svara og koma sér í fimmtán lotur.

Vallea áttu þá ágætan sprett undir lokin og unnu þrjár lotur í röð, en það dugði ekki til. Dusty var einungis einni lotu frá sigri og í þeirri tuttugustu og sjötti hafði Thor betur í vappaeinvíginu við Minidegreez sem Cryths fylgdi eftir á Stalz og Narfa. Spike var einn gegn fjórum en átti ekki roð við þeim. Dusty stóðu því uppi sem sigurvegarar í þessum leik og gerðu út um draum Vallea um fyrsta sætið.

Lokastaða: Dusty 16 – 10 Vallea

Dusty voru ekki lengi að ná sér eftir ósigurinn gegn Þór og mæta Ármanni í næstu umferð, þriðjudaginn 8. febrúar. Vallea og Þór takast svo á á föstudeginum 11. febrúar og verður spennandi að fylgjast með þeirri viðureign. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir