Allt frá því hún flaug fyrst árið 1955 hafa yfir 44 þúsund eintök verið smíðuð. 67 árum síðar er flugvélin enn í framleiðslu, en hlé var þó gert á smíði hennar um tíma.

„Skyhawk er vinsælasta, mest framleidda og öruggasta einkaflugvél í heiminum,“ segir Ómar Ragnarsson, eigandi Frúarinnar, þeirrar Cessnu 172, sem telja má þekktasta hérlendis. Ómar nýtti hana um áratugaskeið til að færa áhorfendum ógleymanlegt sjónvarpsefni heim í stofu.
Ómar hefur reyndar í gegnum tíðina átt þrjár flugvélar þessarar gerðar sem borið hafa einkennisstafina TF-FRU. Þá fyrstu eignaðist hann árið 1971 en þeirri síðustu segir hann að hafi ekkert verið flogið síðan árið 2014.

Frægasti Skyhawk heims er þó sennilega sá sem Mathias Rust lenti á Rauðatorginu í Moskvu í maímánuði 1987. Sovéski herinn varð þá aðhlátursefni fyrir að hafa látið þýskan ungling sleppa í gegnum loftvarnir Sovétríkjanna alla leið inn að Kremlarmúrum en Reykjavík kom við sögu þeirrar flugferðar.
Cessna 172 er einnig algengasta flugvél íslenska flugflotans og hefur svo verið í áratugi. Um fjörutíu eintök eru núna á íslensku loftfaraskránni. Ef systurvélar hennar eru taldar með, litlu systurnar Cessna 150 og 152 og stóra systirin Cessna 182, telur íslenski Cessna-flotinn um áttatíu eintök.

Vinsældir hennar má einkum rekja til þess hversu einfalt er að fljúga henni og auðvelt að læra á hana. Hún þykir jafnframt áreiðanleg og traust og slysatíðni hennar er sú lægsta í einkaflugi. Dauðaslys eru 0,56 á 100.000 flugstundir meðan meðaltalið eru 1,3 dauðaslys á 100.000 flugstundir.
„Það er svo auðvelt að fljúga henni. Svo er hún svo hrekklaus,“ segir Ómar. „Eftir að hafa flogið henni þúsundir tíma finnst þér að vængirnir á henni hafi vaxið út úr þér. Flugmaður og flugvél verða eitt.“

Ómar segir flugvélina þó ekki skara fram úr á neinu sviði. Hún klifri ekki mest og sé ekki hraðfleyg. En þegar allir eiginleikar hennar leggist saman verði útkoman ein besta einkaflugvél sögunnar.
Þær flugvélar sem næstar koma Cessnu 172 í framleiddum eintakafjölda voru báðar orustuvélar í síðari heimstyrjöld, hin sovéska Ilyushin Il-2, í 36 þúsund eintökum, og hin þýska Messerschmitt Bf 109, í um 35 þúsund eintökum, samkvæmt alfræðisíðunni wikipedia. Þar á eftir koma Piper PA-28 og Cessna 150/152, með rúmlega 30 þúsund eintök hvor.
Þótt Cessna 172 hafi mest verið nýtt sem einka- og kennsluvél hafa flugherir um tuttugu ríkja keypt hana til æfinga- og eftirlitsflugs. Þá gerði Landamæraeftirlit Bandaríkjanna út flota slíkra véla til að fylgjast með landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna.
Þess má geta að það var Ómar Ragnarsson á Cessna Skyhawk, TF-FRU, sem fyrstur gat lýst yfir goslokum í Eyjafjallajökli, sem greint var frá í þessari frétt vorið 2010:
Ómar notaði einnig Frúna til að kvikmynda fyllingu Hálslóns haustið 2006.