Dusty missti frá sér unninn leik

Snorri Rafn Hallsson skrifar
armann dusty

Ármann hafði ekki sýnt fallega takta í fyrri leikjum liðanna. Dusty rústaði þeim fyrsta, 16–3 í Ancient og vann þann síðari einnig með miklum mun, 16–6. Til að bæta gráu ofan á svart hafði Dusty nappað PallaB0nda yfir til sín frá Ármanni og því ljóst að Ármann átti harma að hefna.

Fram að þessum leik hafði Dusty einungis beðið einn ósigur á tímabilinu en Ármann hefur verið að sækja í sig veðrið og farið að blanda sér í baráttuna um sæti á Stórmeistaramótinu.

Þessi þriðji og síðasti leikur Dusty og Ármanns á tímabilinu fór fram í Nuke, korti sem Ármann ætti að þekkja í bak og fyrir eftir 66 lotur gegn XY í Nuke í síðustu viku. Hnífalotan féll með Dusty sem byrjaði því í vörn (Counter-Terrorists) á meðan Ármann sótti í fyrri hálfleik.

Vargur var ekki lengi að fella Bjarna strax í upphafi fyrstu lotu, en Ármann kældi alveg eftir það. Réðust þeir svo hratt inn á sprengjusvæðið þar sem Cryths tryggði Dusty fyrstu lotuna með þrefaldri fellu. Thor endurtók leikinn og bætti um betur fyrir Dusty í næstu lotu þegar hann felldi fjóra andstæðinga einn síns liðs.

Dusty tók þriðju lotuna líka og ekki laust við að leikmenn liðsins væru farnir að leika sér að Ármanni eins og köttur að mús. 7homsen tókst þó að koma sprengjunni fyrir í fjórðu lotunni eftir góða opnun frá Kruzer, sem 7homsen og Vargur lokuðu fyrir Ármann.

Dusty hélt þó í taumana á leiknum út hálfleikinn. Eddezennn var virkilega öflugur í vörninni hjá Dusty sem hélt jafnan aftur af tilraunum Ármanns nokkuð auðveldlega. Það eina sem virkaði fyrir Ármann var að spila hægt úr stöðluðum aðgerðum og leita upplýsinga, en það dugði ekki til.

Dusty vöru ötulir við að ná margföldum fellum og hvorki gekk né rak hjá Ármanni gegn afar hittnum andstæðingunum. Í níundu lotu krækti Eddezennn sér í ás og það sem eftir var hálfleiks stráféllu leikmenn Ármanns. Komust þeir hvorki lönd né strönd á útisvæðinu og staðan virkilega slæm þegar fyrri hálfleik var lokið þó Ármann næði aðeins að klóra í bakkann í síðustu lotunni

Staða í hálfleik: Dusty 12 – 3 Ármann

Bakkaklórið reyndist þó upphafið að ótrúlegasta viðsnúningi sem sést hefur lengi. Ármann fór létt með skammbyssulotunni og voru leikmenn liðsins léttleikandi það sem eftir var. Eftir að vinna nokkrar lotur í röð í upphafi síðari hálfleiks var komin stemning í lið Ármanns. Vörðust þeir framarlega og af miklum krafti svo allt féll um sjálft sig í sókn Dusty.

Leikmenn Ármanns fóru sem einn um kortið og stilltu upp í snarpar endurtökur til að tengja saman tíu lotur í röð til að jafna 12–12. Var jöfnunarlotan einstaklega flott þar sem Vargur og Ofvikru fóru saman inn á sprengjusvæðið.

Svo var að sjá að Dusty næði ekki að stilla sig inn á sömu bylgjulengd. Áttu þeir því ekki roð við þeim Ofvirkum, Vargi, 7homsen, Kruzer og Hundza sem hreinlega pökkuðu Dusty saman eftir arfaslakan fyrri hálfleik.

Lokastaða: Dusty 13 – 16 Ármann

Með þessum sigri gerðust Ármann svo frægir að verða annað liðið á tímabilinu til að sigra Dusty, og nú geta Þórsarar unnið tímabilið með því að vinna alla sína leiki.

Eftir leikinn mætti Vargur úr Ármanni í viðtal við þá Kristján Einar og Tómas. Aðspurður hvort leikurinn hafi ekki í raun verið tapaður svaraði Vargur: „Aldrei segja aldrei. Þetta var mjög áhugavert. Við byrjuðum mjög hauslausir og fyrstu átta loturnar vorum við frekar kaldir og úr takti. Við erum búnir að fara yfir grundvallaratriðin hjá okkur. Seinustu leikir hjá okkur hafa ekki verið það sem við erum. Við sýndum algjörlega í dag hvað við erum megnugir.“

Bjarni úr Dusty mætti einnig í viðtal og skrifaði tapið að stórum hluta á pingið hjá Cryths. Cryths er búsettur í Bretlandi og því viðbragðstíminn ekki eins snarpur. Aðspurður hvað gerðist hafði Bjarni þetta að segja: „Við vorum kannski að leika okkur aðeins of mikið í CT-inu [vörninni] og svo vorum við of lengi að hætta að fíflast. Það er afsökun og allt það, en það er ekki hægt að spila með tvo gaura sem eru með 70 ping í disadvantage.“

Eftir leikinn dró Bjarni þó örlítið í land með þessa skýringu á Twitter:

Dusty sitja þó enn á toppnum en með sigri geta Þórsarar komist einungis tveimur stigum á eftir þeim. Í næstu umferð mætir Dusty Sögu, föstudaginn 18. febrúar, en sama kvöld tekur Ármann á móti Vallea. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir