„Ég hef sjálf unnið mikið með það að blanda saman myndlist, ljóðlist og tónlist og kem oft fram með blöndu af gjörningum og ljóðum. En það er hægt að gera tilraunir á svo marga vegu og ég held að það muni kristallast vel á hátíðinni á fimmtudaginn,“
segir Ásta.
Skáldin sem eru hluti af dagskrá Dögum ljóðsins í Kópavogi nota ýmsa miðla til þess að flytja ljóðverkin sín en Stuttungur er hluti af þeirri dagskrá. Sumir listamannanna notast við myndbönd á meðan aðrir nýta hljóð, tóna eða jafnvel gjörninga.
Þátttakendur í ár eru Sjón, Kristín Ómarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Elías Knörr, Björk Þorgrímsdóttir, Sólbjört Vera Ómarsdóttir, Atli Sigþórsson / Kött Grá Pjé, Brynjar Jóhannesson, Ófeigur Sigurðsson og Kristín Karólína Helgadóttir. Hátíðin fer fram í Salnum í Kópavogi.
„Hátíðin er tilraun til að búa til eitthvað nýtt og blanda saman listformum. Ég held að það sé mikill áhugi fyrir að sjá fólk prófa eitthvað nýtt, það getur verið svo spennandi að horfa á fólk fara út fyrir þægindarammann.“
Bætir Ásta við, spennt fyrir morgundeginum.