Lið í ensku úrvalsdeildinni hefur einnig sýnt samstöðu með Úkraínu en leikmenn Manchester United og Watford sameinuðust í myndatöku fyrir leik þeirra í gær og héldu uppi skilti með orðinu „friður“ ritað á sex mismunandi tungumálum.
Leikmenn Manchester City komu klæddir bolum með úkraínska fánanum og áletruninni „ekkert stríð“ (e. No war) til leiks gegn Everton í gær á meðan leikmenn Everton voru allir með úkraínska fánan á herðum sér. Bæði lið eru með úkraínska leikmenn í leikmannahópum sínum, Oleksandr Zinchenko hjá Manchester City og Vitaliy Mykolenko hjá Everton.
Roman Abramovich, rússneskur auðkýfingur og persónulegur vinur Vladimir Putin neyddist í gær til að stíga til hliðar í daglegum störfum sínum fyrir Chelsea svo að félagið gæti fengið að starfa í friði án hans afskipta.
Fótboltafélög víða um Evrópu hafa sagt upp styrktarsamningum sínum við rússnesk fyrirtæki, þar á meðal Schalke 04, Manchester United, Austria Wien og UEFA, knattspyrnusamband Evrópu.
Hollendingar hafa neitað að spila gegn Rússum í undankeppni HM í körfubolta en Bretar hafa einnig gert slíkt hið sama varðandi leik sinn gegn Hvít-Rússum í sömu undankeppni. Óljóst er hvort að Rússar haldi þátttökurétt sínum í undankeppninni en mögulegt er að Rússar og Úkraína muni mætast innbyrðis á næsta stigi undankeppninnar, komist bæði lið upp úr sínum riðlum. Kallað hefur verið eftir því að Rússar verði útilokaðir frá mótinu.
Formúlu 1 kappakstrinum í Rússlandi, sem átti að fara fram í september á þessu ári hefur verið aflýst vegna innrásar Rússa.
Pólland, Svíþjóð og Tékkland hafa öll neitað því að leika við Rússland í umspili um laust sæti á HM 2022 í Katar og ljóst að Rússar munu ekki taka þátt á HM í fótbolta nema að FIFA muni á einhvern hátt veita þeim hjálparhönd.