Handbolti

Sjö mörk Viggós dugðu ekki til í Íslendingaslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson fórnar höndum.
Viggó Kristjánsson fórnar höndum. VÍSIR/VILHELM

Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins er lið hans, Erlangen, mátti þola sex marka tap gegn MT Melsungen í Íslendingaslag þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld, 25-31.

Erlangen og Melsungen eru að berjast á sitt hvorum enda töflunnar þar sem Melsungen er í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn á meðan Erlangen berst fyrir lífi sínu í deildinni.

Gestirnir í Melsungen gáfu tóninn snemma og náðu fljótt fimm marka forystu. Liðið hélt forskotinu út hálfleikinn og leiddi 12-17 þegar flautað var til hálfleiks og gengið var til búningherbergja.

Viggó og félagar náðu að minnka muninn niður í þrjú mörk í seinni hálfleik, en nær komust heimamenn ekki og niðurstaðan varð að lokum sex marka sigur Melsungen, 25-31.

Viggó var sem áður segir markahæsti maður vallarins með sjö mörk fyrir Erlangen, en Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson tók ekki þátt í leiknum fyrir Melsungen.

Eftir sigurinn situr Melsungen í öðru sæti þýsku deildarinnar með 44 stig eftir 27 leiki, jafn mörg og topplið Füchse Berlin. Erlingen situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með tíu stig, en aðeins markatalan heldur liðinu í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×