Frábær endurkoma dugði Sögu ekki gegn Vallea

Snorri Rafn Hallsson skrifar
saga vallea

Það voru Saga og Vallea sem hleyptu 17. umferðinni af stað eftir vikuhlé og leikmannaskiptaglugga. Vallea reynir enn að halda í við Þór og Dusty á toppnum, en Saga hefur verið í töluverðu basli undanfarið og daðrað við umspilssætið í deildinni. Saga nýtti þó tækifærið og krækti sér í liðsauka í leikmanninum WZRD sem var settur beint í byrjunarliðið í stað Gudda.

Saga mætti til leiks af krafti, vann hnífalotuna og byrjaði því í vörn (Counter-Terrorists) í þessum tíunda leik sínum í Nuke á tímabilinu. Mikið mannfall varð í fyrstu lotunni og var WZRD ekki lengi að koma sér á blað þegar Saga nældi sér í fyrstu lotuna. Vallea svaraði þó um hæl á sinn klassíska hátt, með því að frysta leikinn, jafnaði og vann næstu 7 lotur.

Saga hafði þar með verið í nokkuð erfiðri stöðu og gat litla viðspyrnu veitt, jafnvel þegar þeim tókst að vopnast. Allt gekk upp hjá Vallea sem var upp á sitt besta í að taka leikinn eitt skref í einu og fylgja settu skipulagi upp á hár. Sex stigum undir klóraði Saga í bakkann og rétt tókst að aftengja sprengjuna í lotu þar sem Vallea hraðaði á leik sínum.

Vallea hægði þá aftur um leið og vann tvær lotur áður en Saga nældi sér í sína þriðju. Nóg var þó til hjá Vallea sem átti auðvelt með að vopnast og svara í hvert einasta sinn sem Saga gerði sig líklega til að gera að þeim atlögu. Vallea var því með gott forskot eftir fyrri hálfleik þar sem Narfi var þá þegar kominn með 21 fellu.

Staða í hálfleik: Vallea 10 – 5 Saga

Í upphafi síðari hálfleiks fór Saga á miklum hraða inn á sprengjusvæði og náði Vallea ekki að stilla upp í endurtöku áður en Saga felldi þá alla. Það blés lífi í lið Sögu sem loksins tengdi saman nokkrar lotur í röð og greinilegt að sóknin þeirra var öflugri en vörnin.

Saga hafði þá saxað á forskot Vallea, en eftir hlé á leiknum vegna tæknilegra vandamála sneri lið Vallea tvíeflt til baka og vann tvær lotur í röð, en Saga var komið á bragðið. Fjórföld fella frá Brnr minnkaði muninn á ný og var Vallea komið í fjárhagsvandræði. Þreföld fella frá Brnr í þeirri næstu minnkaði muninn í eitt stig og Saga heldur betur búið að spila sig inn í leikinn. ADHD var einnig kominn í gang og þegar 24 lotur höfðu verið leiknar var staðan 12–12.

Narfi náði að bjarga 25. lotunni fyrir horn en Saga sótti svo hratt í þeirri næstu og átti Vallea ekki séns á að sjá við þeim. Hraðabreytingar Sögu og stórleikur frá Brnr höfðu gert Sögu kleift að halda í við Vallea alveg þangað til í lokin þegar Vallea náði loks góðum spretti í vörninni. Með þrefaldri fellu rauf Narfi 30-fellu múrinn og tryggði Vallea sigurinn.

Lokastaða: Vallea 16 – 13 Saga

Það var því góður sóknarhálfleikur sem Vallea byggði sigur sinn á og var þetta þriðji sigur þeirra í röð. Saga var lengi að koma sér af stað og enn og aftur gátu þeir upp á litlu bryddað þegar þeir lentu í vandræðum. Næst leikur Vallea gegn Kórdrengjum þriðjudaginn 8. mars en föstudaginn 11. mars mætir Saga Ármanni. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir