Skoðun

For­dæma­lausir tímar – af­burða árangur

Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Nú eru tvö ár frá því að við starfsmenn hjúkrunarheimila og annarra stofnana í heilbrigðiskerfinu tókumst á við fyrstu aðgerðir okkar til varnar heimilisfólki hjúkrunarheimila landsins og öðrum sem þiggja þjónustu velferðarkerfisins gagnvart Covid-19. Allt frá fyrstu stundu þessa fordæmalausa verkefnis okkar frábæra starfsfólks hafa starfsmannahópar heimila og stofnana allt í kringum landið staðið saman öll sem eitt. Í upphafi faraldursins höfðum við ekki undan að læra ný hugtök og skilgreiningar en sum þeirra hafa fest betur í huga okkar en önnur. Fordæmalausir tímar er eitt þeirra.

Í upphafi marsmánaðar 2020 tóku hjúkrunarheimili landsins stóra ákvörðun með sameiginlegum hætti; skellt var í lás og allar heimsóknir bannaðar til heimilisfólks tímabundið. Aldrei hefði undirrituðum dottið það í hug að til þess háttar aðgerða yrði nokkurn tíma gripið en aftur, aðstæður voru fordæmalausar og því var gripið til fordæmalausra ráðstafana. Sama var upp á teningnum víðar í starfsemi þeirri sem aðildarfélög innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu standa fyrir. Nýjar áskoranir biðu meðal annars í dagdvölum, dagþjálfunum og endurhæfingastarfsemi, sums staðar þurfti að loka, annars staðar að hliðra verulega til og allt var þetta gert af fullkomnu æðruleysi í þágu þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda og þeim til varnar. Starfsfólk sýndi einstaka fórnfýsi á allan hátt, skermaði sig af í mörgum tilvikum í sínum frítíma og aftur, allt í þágu fólksins sem treystir á þjónustu þeirra á degi hverjum.

Því miður náðu þessar hörðu aðgerðir ekki að koma alveg í veg fyrir að Covid-19 næði að höggva skörð í raðir heimilisfólks og það er afar þungbært. Engu að síður er ljóst að þær skiluðu ótvíræðum árangri í að lágmarka smitin eins og kostur var. Smit voru afar fá inni á hjúkrunarheimilum og hjá annarri starfssemi sem fyrirtæki í velferðarþjónustu veita meðan unnið var að því að efla varnir einstaklinganna með bólusetningu. Nú um stundir geisar veiran enn, en sem betur fer eru veikindin í flestum tilfellum mun mildari en þau voru fyrst í stað. Við Íslendingar stöndum vel heilt yfir og á erlendri grundu hefur verið tekið eftir hversu vel tókst til að standa vörð um íbúa á hjúkrunarheimilum. Við megum vera stolt af heilbrigðisstarfsfólkinu okkar og vil ég sérstaklega draga fram þátt starfsmanna fyrirtækja og stofnana innan raða Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þá viljum við líka þakka sóttvarnaryfirvöldum og forráðafólki í heilbrigðiskerfinu fyrir það hve vel það stóð sig í sínum verkefnum.

Við forystufólk SFV höfum farið þess á leit við stjórnvöld að okkar fólk, sem hefur staðið vaktina með glæsibrag undanfarin tvö ár, verði umbunað fyrir fórnfýsi sína og afburða frammistöðu í fordæmalausum aðstæðum. Við trúum því og treystum að starfsfólki stofnana okkar og fyrirtækja verði umbunað líkt og hefur verið gert við a.m.k. hluta annarra heilbrigðisstarfsmanna. Aðildarfélög Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og það er mikilvægt að okkar dýrmæta starfsfólk upplifi sig með þeim hætti, jafnt dags daglega sem og í fordæmalausum aðstæðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Brákarhlíðar og formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×