Skoðun

Hver er að tala um heiðar­leika?

Guðmundur Ragnarsson skrifar

Það er sorglegt að horfa upp á forystumenn tveggja stéttarfélaga, Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og Sjómannafélags Íslands, afhjúpa sig. Hvernig þeim tekst, ásamt núverandi formanni VM, að lesa kjaraskerðingu út úr verkefni mínu varðandi fjórðu iðnbyltinguna um borð í fiskiskipum er mér og fleirum hulin ráðgáta.

Enn alvarlegra er þó að með þessari yfirlýsingu gefa þeir í skyn að Sjómannasamband Íslands og Félag skipstjórnarmanna, sem vildu fara í þessa vinnu, séu einnig tilbúin að lækka laun sjómanna. Átta þeir Einar Hannes Harðarson og Bergur Þorkelsson sig ekki á virðingaleysinu gagnvart félögum sínum?

Forystumenn með þessi sjónarmið skortir kjark til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar og að beina óumflýjanlegum breytingum í besta mögulegan farveg fyrir sína félagsmenn. Það er ekki gæfuleg staða fyrir sjómenn. Krefjandi breytingar eru fram undan og það þarf kjark og þor til að leiða þá vinnu farsællega til lykta.

Hvernig getur það farið fram hjá forystumönnum verkalýðsfélaga að verkalýðshreyfingin um allan heim hefur kallað eftir því að farið verði í vinnu við að laga kjarasamninga að fjórðu iðnbyltingunni og breyttum atvinnuháttum? Til að hafa áhrif og stýra þróuninni en ekki að láta hana koma yfir okkur, þannig að launafólk hafi ekkert um það að segja hvernig breytingarnar verða framkvæmdar. Það má ekki gerast.

Ný framtíð

Verkefnið sem ég vann hjá Brimi gekk út á að gera frá grunni nýjan kjarasamning fyrir hátækni vinnsluskip. Við þessar breytingar munu koma fram mörg ný tæknistörf og inn í þessa vinnu fléttast endurmenntun háseta yfir í tæknimenn.

Störfum á sjó mun fækka eins og sést best í landi og þau munu breytast með tilkomu nýrrar tækni. Hásetar breytast í tæknimenn, vélfræðingar og vélstjórar keyra vinnsludekk og annan sjálfvirknibúnað, störf sem bætast við óháð vélarúminu. Þetta eru breytingar sem munu koma hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Í þessa vinnu var farið án nokkurra skuldbindinga. Frá upphafi var ljóst að niðurstaðan yrði alltaf sú að eftir stæðu verðmætari störf en eru í dag þótt þeim fækki. Að formaður VM skuli hafa hafnað því að koma að þessari vinnu sýnir, flótta frá veruleikanum og kjarkleysi til að takast á við nýjar áskoranir.

Ekki veit ég fyrir hvaða samstarf greinarhöfundar hrósa núverandi formanni VM fyrir, en ég veit hver bar þungann af því að koma Sjómannasambandinu og Sjómannafélagi Íslands saman að samningaborðinu fyrir síðustu kjarasamninga við SFS. Það var ekki Guðmundur Helgi.

Hættuleg og ólýðræðisleg þróun

Það er undarlegt að sjá þessa forystumenn nota orðið heiðarleika. Eftir kosningar hjá VM mun ég skrifa grein um það hvernig stéttarfélög, sem eru komin í mjög nána samvinnu við VM, fjármagna að undirbjóða VM í félagsgjöldum.

Það er öllum ljóst hver er á bak við þessi greinarskrif þeirra félaga. Það er hættuleg þróun að forystumenn annarra stéttarfélaga hafi afskipti af formannskosningum í stéttarfélagi. Slík inngrip eru hrein og bein ögrun við lýðræðið.

Höfundur er frambjóðandi til formanns VM.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×