Kjalnesingar hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að þeir fái að kjósa um framtíð sína samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Þar eru uppi hugmyndir um að endurreisa sveitarfélagið Kjalarneshrepp, sem sameinaðist Reykjavík árið 1998, eða að sameinast frekar nærliggjandi sveitarfélögum; Mosfellsbæ eða Kjósarhreppi.
Vill stærri og öflugri sveitarfélög
Þessar hugmyndir falla ekki illa í kramið hjá innviðaráðherra.
„Ég hef svo sem ekki kynnt mér þær nákvæmlega en það er auðvitað þannig að við höfum verið að virða rétt samfélaga sveitarfélaga. Við höfum hins vegar verið að hvetja til að þau verði stærri og öflugri. Þannig að þetta er nú skref í hina áttina ef þeir ætluðu að fara að verða sjálfstætt samfélag,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Hann er þó ekki mótfallinn því að Kjalnesingar kjósi um þetta atriði í vor.
„Nei, ég held við eigum að gera meira af því að leita til íbúa um íbúasamráð og íbúakosningar og við erum reyndar með slík mál í vinnslu,“ segir Sigurður Ingi.
Lofar því að Sundabrautin verði að veruleika
Spurður hvort ekki sé eðlilegra að Kjalarnes tilheyri sveitarfélagi sem það á bæjarmörk við en ekki Reykjavík sem er talsvert í burtu segir hann það vel geta verið.

Þó hafi Sundabrautin alltaf skipt höfuðmáli þegar Kjalnesingar ákváðu að sameinast Reykjavík. Þeim var lofað að brautin yrði lögð fyrir 2002 en nú tveimur áratugum síðar bólar enn ekkert á framkvæmdinni.
Ráðherrann lofar þó að hún muni hefjast á næstunni.
„Já, ég get lofað því að hún verður því hún er kominn í öruggan farveg og við ætlum að setja hana af stað. Hún er mikilvæg öryggis- og samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu; augljóslega fyrir Kjalnesinga og reyndar allt Vestur- og Norðurlandið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.