Steinunn Anna Radha sagði sögu sína í Kompás af ofbeldi og fordómum innan Smárakirkju þegar hún var unglingur. Hún varð fyrir alvarlegu ofbeldi af hendi unglingaleiðtoga innan kirkjunnar. Sértrúarsöfnuðurinn Krossinn breytti nafni sínu í Smárakirkju 2014 og Gunnar Þorsteinsson hætti sem forstöðumaður eftir ítrekuð hneykslismál. Dóttir hans, Sigurbjörg Gunnarsdóttir, tók við taumunum.
Krossinn náði toppnum árið 2014
Það hefur fækkað í Smárakirkju, áður Krossinum, undanfarinn áratug. Safnaðarmeðlimir Krossins voru um 560 árið 2011 og náðu mest upp í rúmlega 600 árið 2014. Þá var breytt um nafn og ímynd, en félögum hefur mikið síðan og eru nú rúmlega 400. Smárakirkja hefur fengið tæpar 45 milljónir í sóknargjöld frá ríkinu síðustu tíu ár.
„Þeldökkir aðilar” nokkrir af bestu vinunum
Í tilkynningu sem Smárakirkju sendi frá sér eftir að Kompás fór í loftið fyrir viku kom fram að maðurinn sem beitti Steinunni ofbeldi hafi verið rekinn úr söfnuðinum eftir stutt starf. Nokkrir velunnarar Smárakirkju, meðal annars Sigurbjörg, hafa farið mikinn á kommentakerfunum um efni þáttarins. Meðal þeirra er Linda Baldvinsdóttir sem segir meðal annars á Facebook að frásögn Steinunnar hafi verið ósönn. Sömuleiðis segir hún að enginn rasismi eða fordómar séu innan safnaðarins. Enda séu „nokkrir af bestu vinum Sigurbjargar nú þeldökkir aðilar.”
Svart fólk eldist betur og Whitney Houston söng vel
Í gær birtist myndbandsupptaka á vefsíðu Smárakirkju af predikun Sigurbjargar þar sem hún vísar öllum ásökunum um fordóma gagnvart hörundsdökku fólki og hinsegin fólki til föðurhúsanna.
„Hefði ég fengið að velja það þá held ég að ég hefði kosið að vera frekar svört. Svart fólk, til dæmis, eldist betur. Nei, ég segi svona. Í alvöru talað. Hafið þið heyrt söngkonu, Whitney Houston? Halló! Ég vildi óska þess.”
Hún nefnir máli sínu til stuðnings að kirkjan hafi um tíma haft þeldökkan aðstoðar pastor, hommar og lesbíur séu velkomin og tattú séu ekki illa séð, enda sé hún sjálf með tattú í augabrúnunum.
Gefur lítið fyrir mótbyr
Steinunn segist í samtali við fréttastofu gefa lítið fyrir þann mótbyr sem hún hefur orðið fyrir af hendi safnaðarmeðlima Smárakirkju eftir viðtalið. Jákvæðu skilaboðin séu mun fleiri en þau neikvæðu og þetta sé þess virði til að varpa ljósi á þau viðhorf sem ríkja innan kristilegra bókstafstrúarsafnaða.
Fréttastofa hefur tvívegis beðið Sigurbjörgu um viðtal vegna málsins, bæði áður en Kompás kom út og eftir á, en hún afþakkaði í bæði skiptin.