Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að slökkviliðið hafi farið í um 12 útköll í dag þar sem vatn hefur lekið inn að utan. Töluvert lak inn í Tennishöllina í Kópavogi en slökkviliðið nýtti tvo bíla til starfans.
„Það er ís í túnum og eitthvað slíkt, þanngi að þetta drenast illa í burtu. Þetta er vatn sem er að seytla inn í hús og kemur upp úr niðurföllum. Það er mikil hláka og það er kannski ís í niðurföllum og drenast illa í kringum hús. Þá lendir fólk í þessum vandræðum,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu.
Er fólk ekki nógu duglegt að hreinsa frá niðurföllunum?
„Ég held að þetta sé bara samblanda af fráveitukerfinu, snjó og frosti og ís og slíku. Yfirleitt er það bara það; þegar óvenjumikil rigning kemur á skömmum tíma. Þá getur þetta stundum orðið svolítið basl.“