Skoðun

Ása­trúar­fólki mis­boðið

Hilmar Örn Hilmarsson og Jóhanna Harðardóttir skrifa

Í Vísi í dag er frétt um málflutning í máli Ágústar og Einars Ágústssona kennda við Zúisma.

Þar leyfir Jón Bjarni Kristjónsson, verjandi Einars sér að líkja Zúisma við Ásatrúarfélagið sem „væri fyrst og fremst að bjóða upp á athafnir, en væri ekki endilega með reglulega viðburði. Félagsmenn kæmu öðru hvoru saman til að blóta og svo sé mætt til að lesa Hávamál og fá sér bjór.“

Félögum í Ásatrúarfélaginu er verulega misboðið að aðstandendur Zúisma skuli leyfa sér að bera starfshætti þessara tveggja félaga saman, enda greinilegt á þessum orðum að þekkingin á starfsemi Ásatrúarfélagsins er engin.

Staðreyndin er þessi:

Ásatrúarfélagið heldur úti mikilli menningarstarfsemi og þjónustu við félaga þess allan ársins hring af ábyrgð og drengskap og samkvæmt lögum. Á viðburðum á vegum félagsins er áfengi aldrei í boði.

Félagið heldur úti mikilli þjónustu við félaga sína, sér um nafngjafir, siðfræðslu fyrir unglinga, siðfestuathafnir (heiðin ferming), hjónavígslur og útfarir með allri þeirri umönnun og vinnslu sem því tilheyrir. Goðar þess eru til staðar fyrir félagana um allt land og sinna starfskyldum við félagið og fólkið með ýmsum hætti.

Blót eru haldin um allt land með fyrirfram skipulögðum hætti s.s. Landvættablót, Jólablót, Þorrablót, Sumardagsblót, Jafndægrablót að vori og hausti, Þingblót, Dísablót eða Haustblót. Auk þessara föstu blóta boða goðarnir sjálfir til blóta víðs vegar um landið af öðru tilefni þegar þeir vilja og þurfa þykir.

Fyrir utan athafnir sem þessar er í boði margvísleg menningarstarfsemi á vegum Ásatrúarfélagsins sem reyndar hefur orðið fyrir barðinu á Covid undanfarin tvö ár, en þó haldið áfram með einhverjum hætti þegar ástand leyfir. Þar má meðal annars nefna alls kyns námskeið og fræðslufundi um menningu og umhverfismál, leshring, handverkskvöld, goðafundi í héraði og margt, margt fleira.

Ásatrúarfélagið telur sig yfir samanburð við Zuisma hafið, en vill að sannmælis sé gætt í fjölmiðlum.

Höfundar eru Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði og Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði og staðgengill allsherjargoða.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×