Foreldrar stúlkunnar sögðu sögu sína í kvöldfréttum okkar síðasta sunnudag.
Þeir segja heilbrigðiskerfið hafa brugðist sér og telja læknisþjónustu sem margir á landsbyggðinni búa við óásættanlega.
Sjálf búa þau á Þórshöfn en þegar dóttir þeirra veiktist var næsti læknir á Kópaskeri í um 70 kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra.
„Þetta er auðvitað bara mikill harmleikur og hugur minn er auðvitað hjá aðstandendum og fjölskyldu barnsins,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Málið er nú á borði landlæknis sem er að hefja á því rannsókn.
„Og á meðan er það nú svona bara venjan að tjá sig ekki frekar um slík tilvik en já, alveg örugglega margt sem við getum gert betur í að þjónusta landsbyggðina,“ segir Willum.
Hann segir brýnt að reyna að bæta stöðuna þar og vill einblína á landsbyggðina á næstunni.
„Já, alltaf. Og þetta er bara viðvarandi verkefni og við eigum auðvitað bara að hlusta og læra og reyna að gera betur,“ segir hann.
Ekki mistök að aflétta öllu
Nú er rétt tæpur mánuður síðan öllum samkomutakmörkunum var aflétt.
Síðan þá hefur borið talsvert á umræðu um andlát vegna Covid-19 enda hefur þeim fjölgað gríðarlega með tilkomu ómíkron-afbrigðisins eins og sjá má á þessu grafi:

Hafa verður í huga að margfalt fleiri hafa smitast af veirunni á sama tíma og þegar tíðni dauðsfalla er skoðuð kemur í ljós að hlutfallslega látast nú mun færri eftir baráttu við Covid en nokkru sinni fyrr.

Heilbrigðisráðherra sér ekki eftir að hafa aflétt öllum takmörkunum enda hefði þurft mikið til að hemja nýja afbrigðið.
„Þá hefði það þurft bara nánast að loka samfélaginu og við vorum hér, bara að minna á það, með 10 manna samkomutakmarkanir en þá var útbreiðsla smita mikil,“ segir Willum.
Þannig það voru ekkert mistök að aflétta öllu?
„Nei, ég met það ekki. Það voru afléttingar, við tókum þetta í skrefum. Við fórum varlegar en flestar aðrar þjóðir ég minni á það líka.“