XY pakkaði Vallea í Nuke

Snorri Rafn Hallsson skrifar
xy vallea

Vallea er í harðri baráttu við Þór um annað sætið í deildinni en allar líkur voru á að XY myndi enda í fimmta sætinu og missa af beinni inngöngu í Stórmeistaramótið. Fyrsti leikur liðanna á tímabilinu fór 16–9 fyrir XY í Nuke en Vallea hafði betur í Dust 2 16–12.

Það kom ekkert annað kort til greina í gærkvöldi en Nuke og var þetta ellefti leikur XY í því korti og sá tíundi hjá Vallea. Vallea vann hnífalotuna og byrjaði í vörn (Counter-Terrorists) en þreföld fella frá Pandaz tryggði XY fyrstu lotuna í sókninni. XY voru ákveðnir í aðgerðum sínum í upphafi leiks og vann fyrstu þrjár loturnar. Þá stillti Vallea upp í einfalda vörn þar sem Minidegreez fékk að halda línunni til að koma Vallea á blað en XY svaraði um hæl.

Pandaz var atkvæðamikill framan af í opnunum fyrir XY sem setti saman virkilega skemmtilegan sóknarhálfleik og byggði upp gott forskot. Voru allir leikmenn liðsins sprækir og léku eins og þeir hefðu engu að tapa. Að sama skapi voru liðsmenn Vallea máttlausir og héldu litlum vörnum uppi gegn XY sem fóru sér hægt og tóku enga sénsa.

Staða í hálfleik: XY 10 – 5 Vallea

Fjórföld fella frá Stalz í fyrstu lotu síðari hálfleiks tryggði Vallea sjötta stigið í leiknum en setti ekki tóninn fyrir leikinn. XY vann næstu tvær loturnar eftir það. Vallea gerði þá tilraun til að frysta leikinn líkt og XY hafði gert í sinni sókn en þeim var pakkað saman og staðan orðin 13–6 fyrir XY.

Eftirleikurinn var svo tiltölulega auðveldur fyrir XY. Hvorki gekk né rak hjá Vallea sem féllu gjarnan snemma í lotum og áttu litla möguleika á að gera sér mat úr neinu.

Lokastaða: XY 16 – 6 Vallea

Eftir þetta næst stærsta tap Vallea á tímabilinu eru möguleikar þeirra á öðru sætinu orðnir litlir. Verða þeir því líklega að sætta sig við þriðja sætið en XY er nú öruggt í því fimmta. Í næstu viku mætir Vallea meisturunum í Dusty föstudaginn 1. apríl og sama kvöld mætir XY Ármanni. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir