„Í Guðs bænum, þessi maður getur ekki verið lengur við völd,“ sagði Biden um Pútín í ræðu fyrir framan fjölda fólks í Varsjá, höfuðborg Póllands, um helgina.
Ummælin vöktu strax mikið umtal og fjallað var um þau í helstu fjölmiðlum heims, enda ekki oft sem forseti Bandaríkjanna virðist kalla eftir því opinberlega að valdaskipti verði í Rússlandi.
Biden on Putin: “For God’s sake, this man cannot remain in power.” pic.twitter.com/atNZtCPvAM
— Aaron Rupar (@atrupar) March 26, 2022
Bandarískir embættismenn voru snöggir að túlka orð forsetans á þá vegu að hann hafi ekki verið að kalla eftir stjórnarskiptum í Rússlandi, heldur hefði hann meint að ekki mætti leyfa Pútín að beita valdi sínu gegn nágrannaþjóðum Rússlands.
Biden sjálfur ræddi stuttlega um ræðuna á fundi í Hvíta húsinu í Washington í dag þar sem hann sagði að hann myndi ekki taka ummælin til baka.
„Ég mun ekki taka neitt til baka,“ sagði Biden er hann freistaði þess að útskýra samhengið sem ummælin voru látin falla í.
„Ég var að tjá hneykslun mína á því gjörðum Pútíns og hvað hann hefur gert gert,“ sagði Biden og bætti við að fyrir ræðuna hafi hann hitt úkraínska flóttamenn.
„Ég var ekki þá, né núna, að tala fyrir stefnubreytingu af hálfu stjórnarinnar.“