Skoðun

Þjóðarhöllin rísi í mekka handboltans

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Vandræðagangur í viðræðum ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar í málefnum þjóðarhallar fyrir handboltann á Íslandi er orðinn verulega pínlegur. Enn pínlegra er málið svo orðið fyrir Framsóknarflokkinn og ráðherra þess, sem lofuðu íþróttahreyfingunni öllu fögru daginn fyrir síðustu alþingiskosningar og sögðu að tíminn fyrir byggingu þjóðarhallar væri „núna“. [1 ]Orðið „núna“ hefur nú bæst við teygjanlega orðabankann.

Íþróttamiðstöð er að rísa á Selfossi

Í Svf. Árborg, nánar tiltekið í mekka handboltans, Selfossi, er verið að vinna í að byggja upp íþróttamiðstöð sem hýsa á allar deildir Ungmennafélagsins til framtíðar. Staðsetning íþróttamiðstöðvarinnar er í hjarta bæjarins, Laugardal okkar Selfyssinga.

Fullbyggð er áætlað að íþróttamiðstöðin verði yfir 22.000 fermetrar að stærð og gert er ráð fyrir því að framkvæmdum við hana verði að fullu lokið eftir tíu til fimmtán ár. Fyrsti áfangi íþróttamiðstöðvarinnar hefur nú þegar verið tekin í notkun, 6500 fermetra fjölnota íþróttahús.

Seinni áfangar fela í sér byggingu handbolta og körfuboltahúss, fimleikahúss, stækkun á fjölnota íþróttahúsinu, aðstöðu fyrir bardagaíþróttir, skrifstofur, samkomusali og búningsaðstöðu. Yfirlit yfir íþróttasvæðið má sjá með því að smella á þennan hlekk.

Er ekki bara best eins og staðan er nú, að ríkisstjórnin og ráðherrar Framsóknarflokksins horfi til þess að taka upp viðræður við Svf. Árborg um framtíðarstaðsetningu Þjóðarhallar fyrir handboltann? Ég er til í viðræður, boltinn er kominn til ykkar.

Höfundur er formaður bæjarráðs Árborgar.

[1] https://www.visir.is/g/20212159478d/thjodar-hollin-risi





Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×