Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar hefur verið með erfiðasta móti í vetur. Þurrkar síðastliðið haust og sumar gerðu það að verkum að Þórisvatn fylltist ekki, en það er mikilvægasta miðlunarlónið á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar, segir í tilkynningu.
Í desember síðastliðnum var tilkynnt um skerðingu á afhendingu raforku til fiskimjölsverksmiðja og í janúar var tilkynnt um skerðingar til stórnotenda og fjarvarmaveitna.
„Á skömmum tíma hefur staðan batnað svo um munar. Hinn 10. mars sl. var reiknað með að skerðingar stæðu út aprílmánuð, en úrkoma og hlýnandi veður síðari hluta mars kollvarpaði þeim illspám. Sú breytta staða leiddi til þess að hægt var að tilkynna að ekki kæmi til endurkaupa á raforku, sem er síðasta og dýrasta úrræði okkar til að verjast lágri stöðu miðlunarforðans. Nú er svo komið að hægt er að vinda ofan af skerðingum.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fagnar tíðindunum.
„Við erum ákaflega fegin því, fyrir okkar hönd og viðskiptavina okkar, að nú sjái fyrir endann á skerðingum hjá flestum. Við leggjum okkur alltaf fram um að mæta viðskiptavinum okkar af sanngirni og ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir samstarfið og góðan skilning á erfiðri stöðu.“