Nokkur fjöldi fólks var saman kominn en skipuleggjendur skjóta á að um 600 manns hafi verið viðstaddir mótmælin. Ræður voru fluttar til að mótmæla því að „almannaeigur séu seldar á afslætti gegn vilja þjóðarinnar.“
Framsögumenn voru Þorvaldur Gylfason prófessor, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Ásta Lóa Þórsdóttir úr Flokki fólksins og Gunnar Smári Egilsson úr Sósíalistaflokki Íslands.

„Við erum að mótmæla sölunni á Íslandsbanka og hvernig að henni var staðið. Hverjir fengu að kaupa hlut,“ sagði Gunnar Smári í samtali við fréttastofu sem fór og fylgdist með mótmælunum.
„Við erum að mótmæla spilltri ríkisstjórninni sem er vanhæf og leiðinleg,“ sagði Atli Gíslason, formaður ungra Sósíalista. Kristbjörg Eva Andersen Ramos, ungum Sósíalistum, bætti þá við:
„Burt með ólígarkana, burt með spillinguna. Við viljum réttlátt samfélag.“

Margir þeirra mótmælenda sem fréttastofa ræddi við settu söluna á Íslandsbanka nú í samhengi við efnahagshrunið 2008.
„Þetta er alveg ferlegt að þetta sé í annað sinn á innan við tuttugu árum sem að bankarnir eru gefnir,“ sagði Páll Kristjánsson, einn mótmælendanna. Hans krafa var einföld: Að ríkisstjórnin segði af sér í heild, skilyrðislaust. Sjónarmið sem fleiri mótmælendur tóku undir.
Gunnar Smári segist upplifa það að almenningi sé misboðið vegna málsins.
„Honum er mjög misboðið enda er þetta eins og löðrungur. Fólk er enn að tala um löðrunginn á Óskarsverðlaunahátíðinni en þetta er miklu kröftugri löðrungur á miklu fleira fólk.“

