„Við ætlum að spila okkar leik, vera yfirvegaðar með boltann, skapa færi og vera sterkar í vörninni. Ef við spilum vel og spilum okkar leik fáum við eitthvað gott úr þessum leik,“ sagði Dagný í samtali við Vísi fyrir síðustu æfingu íslenska liðsins í Prag. Á morgun fara Íslendingar svo yfir til Teplice þar sem leikurinn fer fram.
Ísland hefur unnið Tékkland tvisvar síðasta hálfa árið, 4-0 í undankeppni HM og 1-2 á SheBelieves mótinu í Bandaríkjunum.
„Þetta voru öðruvísi leikir. Þeir spiluðu ekki með sitt sterkasta lið á SheBelieves en það sterkasta heima. Við erum kannski aðeins sterkari en samt eru þetta svipuð lið,“ sagði Dagný.
„Úrslitin í leiknum sem við unnum heima gaf ekki rétta mynd af honum. Við sköpuðum meira og nýttum færin okkar vel. Þetta verður hörkuleikur og við þurfum að vera einbeittar í okkar aðgerðum, bæði í vörn og sókn. Þær eru góðar að halda boltanum og spila í fáum snertingum og eru með góða sendinga- og skotmenn. En aðaleinbeitingin er á okkur sjálfum.“
Leikurinn er algjör úrslitaleikur fyrir Tékka sem verða að vinna til að eiga möguleika á að ná 2. sæti riðilsins og komast þar með í umspil um sæti á HM.
„Þetta er að mörgu leyti stór leikur fyrir bæði lið og úrslitaleikur fyrir þær. Fyrir okkur er þetta stór leikur upp á að komast í kjörstöðu í riðlinum. Þetta verður hörkuleikur og vonandi mjög skemmtilegur,“ sagði Dagný að lokum.