Skoðun

Að axla ábyrgð á gjörðum sínum í orði og verki – Í kjölfar viðtals við tónlistarmanninn Auð

Inga Margrét Benediktsdóttir skrifar

Auður stígur fram í viðtali eftir að hafa dregið sig úr sviðsljósinu í u.þ.b. ár. Þar axlar hann ábyrgð á gjörðum sínum og brotum gagnvart þolendum sínum. Hann viðurkennir að hafa beitt ofbeldi á við þvinganir, suð, hafa farið yfir mörk einstaklinga og fleira. Í kjölfar þessa viðtals spretta upp hrós í hans garðs á Twitter, athugasemdakerfi fréttamiðla, Facebook hópum og í persónulegum stöðufærslum almennings. En þó eru einnig einstaklingar sem vilja meina að hans yfirlýsing hafi ekki verið nægilega góð eða þolendavæn.

Í #metoo byltingunni sem hefur átt sér stað undanfarið hefur verið farið um víðan völl hvað varðar ábyrgð gerenda s.s. að axla ábyrgð á sínum gjörðum í orði og verki. Þar er lagt til að gerendur leiti sér faglegrar aðstoðar og vinni úr sínum málum og jafnframt geri sér grein fyrir þeim sálræna skaða sem þeir hafa valdið þolendum sínum og í sumum tilfellum samfélaginu. Nú stígur maður fram og hefur gert alla þessa hluti og segist iðrast og vilja axla ábyrgð. Hann biður meira að segja þolendur sem hafa ekki sett sig í samband við sig að gera það ef þeir vilja á forsendum þolanda. Hann er ekki að ætlast til þess að allir fyrirgefi sér sem hann hefur brotið á, en er fús að bera ábyrgð á því sem hann hefur gert.

Eflaust er erfitt fyrir þolanda sem hefur ekki stigið fram og sagt frá ofbeldi Auðar gagnvart sér að hlusta á þessa yfirlýsingu. Áfallastreituröskunin, reiðin, sorg, tár, kvíði og öll tilfinningaflóran gæti brotist fram sem eru réttlætanleg viðbrögð eins og hver önnur viðbrögð mannsins. Við stjórnum ekki viðbrögðum annarra.

Ég sjálf er þolandi margskonar ofbeldis. Kynferðisofbeldis í fjölda skipa, eineltis bæði í skóla og vinnustað og heimilisofbeldis í flestum sínum myndum. Eitt sinn þá mætti ég geranda kynferðisofbeldis gagnvar mér í samkomu og mér leið mjög illa. Hann hafði ekki borið ábyrgð á gjörðum sínum á þeirri stundu. Ég fór og settist við hliðina á þessum manni og sagði honum að ég vildi ræða svolítið við hann. Ég spurði hann hvort hann vildi ekki biðja mig afsökunar á einhverju og viðurkenna að hann hefði gert mér rangt. Sá maður horfði í augun á mér og sagði að hann vissi að það sem hann hefði gert væri rangt. Hann var ungur þegar þetta átti sér stað og það voru fleiri en eitt tilvik sem rætt var um. Ég taldi upp allt það sem hann hafði gert mér og hann sat og hlustaði með virðingu á það sem ég sagði og tók ábyrgð á öllum sínum gjörðum. Við búum í litum bæ og í kjölfar þessa samtals okkar þurfti ég auðvitað að ná að jafna mig og vinna úr því að hann virkilega iðraðist, gerði sér grein fyrir hvað hann hefði gert rangt og beðið afsökunar á sinni hegðun. Ég og þessi maður erum ágætis vinir í dag og það var mikill léttir, á við að bjargi hefði verið lyft ofan af mér, að hann hefði borið ábyrgð á sínum gjörðum og virkilega iðrast.

Það er ekki þar með sagt að allir geti gert það sama og ég og þessi maður gerðum. En að Auður sjái að sér, sjái að hann hafi gert rangt og stígi fram – ekki sem fórnarlamb heldur ábyrgur sinna gjörða – er stórt skref. Það eru ekki margir menn í heimi fræga fólksins sem hafa stigið fram og gert það sama og Auður og mér þykir þetta framför. Fræga fólkið á að bera ábyrgð á sínum gjörðum jafnt á við almenning og viðurkenning Auðar er skref í rétta átt í þeim málefnum.

En svo eru það hinar raddirnar sem stíga fram. Þær raddir segja: „Auður ber enga ábyrgð á sínu ofbeldi“. „Var þetta þolendavæn yfirlýsing?“. „En hvað með þá þolendur sem hafa ekki stigið fram?“. „Þolendur eiga að eiga frumkvæðið“. „Það sem hann sagði var ekki nægilega vel orðað, hann sagði ekki að hann hefði beitt ofbeldi, hann sagði bara ég ber ábyrgð á að hafa farið yfir mörk og svo framvegis“. Auður er spurður í viðtalinu um það ofbeldi sem hann hafi beitt og telur þar upp þætti sem teljast undir ofbeldi og viðurkennir sinn þátt í því. Hann biður þolendur að hafa samband við sig ef þeir vilja, á eigin forsendum. Hann segist axla ábyrgð á öllu því sem er satt. Þá koma raddirnar aftur og segja: „Bar hann ábyrgð á öðrum hlutum svo sem þöggunar samningum?“. Svarið er að hann sagðist sjálfur vilja sjá þessa samninga ef þeir væru til því hann vil vinna úr gjörðum sínum. Jafnframt ýtir fréttamaður/kona því að honum að ef þeir eru til þá muni þeir líklega koma upp á yfirborðið í kjölfar viðtalsins.

Allir sem berjast fyrir ofbeldi vilja að ákveðin breyting eigi sér stað á okkar litla Íslandi. Breytingar sem snúa meðal annars að því að gerendur axli ábyrgð. Gerandi var að axla ábyrgð og hefur unnið í sjálfum sér með aðstoð fagfólks, en vegna þess að hann orðar ekki hlutina rétt, að yfirlýsing hans er ekki „samkvæmt bókinni“, að hann talar ekki með þeim orðum sem fólk sem berst gegn ofbeldi (að hluta til) vil heyra og svo margt fleira – þá er þetta ekki nógu gott. Fólk vil í rauninni stjórna því hvernig hann hefði átt að gera þetta. Stjórna því hvaða orð eru rétt falin til að viðurkenna gjörðir sínar. Meðal annars er nefnt að þó hann væri að axla ábyrgð væri hann ekki að gera það á öllu sem hann hefði gert og þessi yfirlýsing væri í rauninni bara „prump“. Hvað vilja þessir einstaklingar fá meira en yfirlýsingu með orðum geranda? Þarf að gefa út handbók um hvernig senda á frá sér yfirlýsingu til þess að allir verði sáttir? Þarf að fara eftir skrefum eða verkferlum sem eru sniðin skv. þeim sem finnst þetta ekki nógu gott svo þeir verði sáttir? Er ekki best að láta verkin tala og sjá hvort að eitthvað kemur upp í kjölfar þessarar yfirlýsingar og hvort Auður muni þá axla ábyrgð á því líka? Ef þetta er ekki skref í rétta átt, hver er þá rétta áttin? Eiga þolendur að stjórna því hvernig gerendur biðjast afsökunar, bera ábyrgð og svo framvegis?

Stjórnun er eitt form af ofbeldi. Það að vilja stjórna hvernig aðrir koma fram eða hvað þeir segja eða hvernig þeir hegða sér er form af ofbeldi. Ég er kona sem berst gegn ofbeldi og því tek ég ekki undir að yfirlýsing Auðar hafi ekki verið nægilega góð því „það þarf sko að nota x orð til að hún sé það“ eða eitthvað annað sem hefur komið fram. Ég stjórna ekki orðum annarra, gjörðum, hegðun og framkomu. Ég beiti ekki ofbeldi og er ekki að fara að skikka manninn til að orða hlutina öðruvísi því það henti mér ekki að hann segi frá á þennan veg. Ég tek því fagnandi að þróunin sé á þennan veg. Ef gerendur geta á einhvern hátt axlað ábyrgð á gjörðum sínum, hvort sem það er að hluta til eður ei, þá er það skref í rétta átt og því á að fagna.

Höfundur er meistaranemi á heilbrigðisvísindasviði innan sálrænna áfalla og ofbeldis (útskrift júní 2022).


Tengdar fréttir

„Bið um að vera dæmdur út frá gjörðum mínum en ekki því sem er ósatt“

Það er í grunninn munur á að trúa orðrómum og trúa þolendum. Ég get ekki tekið ábyrgð á því sem er ósatt, segir tónlistarmaðurinn Auður. Hann segist axla ábyrgð á ásökunum kvenna sem hafa sakað hann um að hafa brotið á sér, verið ógnandi og að hafa farið yfir mörk en hafnar algjörlega orðrómum um þöggunarsamninga og brot gegn ólögráða stúlkum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×