Engin fyrirmæli eða viðbrögð frá ríkisstjórninni hafi borið merki um annað, hvorki í aðdraganda útboðsins eða eftir það.
„Þannig taldi stjórn og starfsfólk Bankasýslunnar sig vinna í fullu umboði fjármálaráðherra og ríkisstjórnar,“ segir í yfirlýsingu frá stjórninni og starfsfólkinu sem send var á fjölmiðla fyrir skömmu.
Tilefni yfirlýsingarinnar er yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna frá því í morgun, þar sem fram kom að þau vildu leggja niður Bankasýsluna.
Í yfirlýsingunni segir að þó lengi hafi legið fyrir að til stæði að leggja Bankasýslu ríkisins niður hafi orðalag yfirlýsingarinnar komið stjórn og starfsmönnum á óvart.
„Engin formleg gagnrýni hefur borist Bankasýslunni frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar á framkvæmd útboðsins þó komið hafi fram að ráðherrar hafi verið ósáttir við að Bankasýsla ríkisins taldi ekki heimilt að birta lista yfir kaupendur í útboðinu. Það mat Bankasýslunnar byggði á álitum fleiri en eins utanaðkomandi lögfræðiráðgjafa stofnunarinnar.“
Stór hluti enn óseldur
Í yfirlýsingunni er vísað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram komi að Bankasýsla ríkisins fengi það hlutverk að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir árið 2023, ef markaðsaðstæður væru hagfelldar.
35 prósenta hlutur hafi verið seldur í frumútboði í fyrra og í framhaldi af því hafi verið ákveðið að selja næsta hlut með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi. Sá hlutur hafi verið 22,5 prósent og sölufyrirkomulagið fól í sér lokað útboð á hlutum í Íslandsbanka til hæfra fjárfesta og segir í yfirlýsingunni að það sé algengasta söluaðferð eftir frumútboð á hlutabréfum í evrópskum fyrirtækjum.
Þá segir að í öllum gögnum frá Bankasýslunni hafi komið fram að helsti gallinn við það fyrirkomulag væri að ekki væri gert ráð fyrir þátttöku almennra fjárfesta.
„Ríkissjóður á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka og er hluturinn metinn á um 100 milljarða. Þann hlut á eftir að selja og var m.a. gert ráð fyrir þátttöku almennings í næstu skrefum,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórn Bankasýslunnar segir það ekki samræmast hlutverki stofnunarinnar að taka þátt í þeirri umræðu sem skapast hafi í kjölfar útboðsins og varði að miklu leyti pólitísk álitaefni. Stjórnin segist fagna yfirstandandi skoðun á framkvæmd útboðsins.