Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni þar sem segir að umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar í gærkvöldi og nótt þar sem húsleitir voru gerðar og ökutæki stöðvuð leiddu til þess að hann var handtekinn undir morgun.
Gabríel er nú í fangageymslu lögreglu.
Fimm önnur voru handtekin í aðgerðum lögreglu sem rannsakar hvort Gabríel hafi verið veitt aðstoð við að losna undan handtöku. Þau eru einnig í fangageymslu lögreglu.
Gabríel slapp úr haldi lögreglu um sjö leytið á þriðjudaginn en hann var þá fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem mál hans var til meðferðar.
Lögregla hafði undanfarna daga leitað að Gabríel. Aðgerðir lögreglu höfðu sætt nokkurri gagnrýni þar sem lögregla hafði í tvígang afskipti af sextán ára dreng í tengslum við leitina að Gabríel, að því er virðist vegna þess að hann er þeldökkur líkt og Gabríel.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að henni þætti leitt að hinn sextán ára drengur hefði dregist inn í málið. Ræða þyrfti hvernig bæta mæti aðgerðir, lögregla yrði hins vegar að fylgja eftir ábendingum í leit að eftirlýstum manni.
Fréttin hefur verið uppfærð.